Söguloftið í Landnámssetrinu er svipað og baðstofa, ég verð þar eins og gestur og segi fólki sögu,“ segir Magnús Ólafsson, fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum í Húnavatnssýslu. Hann mun rifja upp síðustu aftöku Íslandssögunnar á Söguloftinu næsta sunnudag, 12. janúar, og hefja frásögnina klukkan 14. Þá verða liðin 190 ár, upp á mínútu, frá því þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson létu lífið á höggstokki í Vatnsdalshólunum 12. janúar 1730. Þau höfðu verið fundin sek um morð á Natani Ketilssyni, bónda á Illugastöðum, og Pétri Jónssyni sem var gestkomandi á bænum. Sögustundin nefnist Öxin – Agnes og Friðrik.

„Það er mikið búið að skrifa um þennan atburð og ég mun styðjast við málsskjöl og fleira. En margir vinklar eru á sögunni,“ segir Magnús íbygginn um nálgun sína að þessari örlagasögu sem hann gjörþekkir.

Aftakan fór fram í landi Sveinsstaða, þar sem Magnús ólst upp og bjó síðar. „Ég hef átt margt sporið um þessar slóðir enda gekk búfénaðurinn okkar þar sem Þrístapar eru. Faðir minn og afi komu báðir að því, árið 1934, að flytja líkamsleifar sakafólksins í vígða mold og það var mikið drama í kringum það.

Magnús hefur á undanförnum árum farið með gesti í hestaferðir um sögusvið Illugastaðamorðanna og sagt söguna þar sem atburðirnir gerðust. „Að standa á Þrístöpum með hópi fólks sem hefur áhuga á þessari sögu er stórkostlegt,“ segir hann. „Það er hægt að benda á svo margt.“