Þjóðminjasafn Íslands tók nýlega á móti nokkrum sögufrægum gripum frá Ríkisútvarpinu til varðveislu. Þar á meðal má finna köttinn Kela og Klæng sniðuga sem sæta nú einangrun í sérstökum umbúðum.

„Þessir munir hafa verið á RÚV síðan þeir voru búnir til á sínum tíma og hafa verið í svokölluðu alrými,“ segir Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safneignar Þjóðminjasafnsins. „Þegar við tökum þá hingað inn og blöndum þeim saman við hinar þjóðargersemarnar sem við varðveitum verðum við að ganga úr skugga um að þeir taki enga óboðna gesti með sér.“

Þótt Íslendingar geti sýnt einangrun talsvert betri skilning eftir að hafa mátt sæta sóttvarnaaðgerðum undanfarin ár þá eru ráðstafanir í kringum einangrun safnmuna þó aðeins aðrar.

„Við erum til dæmis að passa upp á að fá ekki möl, hambjöllur eða aðra hluti sem geta lifað í munum úr blönduðu efni á borð við brúður, svo ég tali nú ekki um ef það er eitthvað lífrænt í þeim,“ útskýrir Ágústa. „Við erum með þá hérna niðri í sérstökum einangrunarklefa þar sem þeir deila rými með alls konar munum áður en þeir fara í gegnum formlegt ferli og finna stað í varðveislurými eða sýningu.“

Verksummerki óværunnar

Þegar munirnir eru teknir úr plastpokunum er gaumgæfilega leitað eftir verksummerkjum, til dæmis hjá hambjöllunum sem skilja eftir sig þar til gerðan ham. Ágústa tekur undir með að þetta sé ansi leynilögreglulegt.

„Þetta er það, og snýst svolítið um að glæpurinn geti ekki átt sér stað – að óværan komist inn,“ segir hún og hlær.

Óvinir safnvarðanna eru ekki einungis sníkjudýr heldur þarf að huga að mörgu þegar kemur að varðveislu muna, það þarf einnig að passa upp á þætti á borð við raka og hitastig.

„Það sem við viljum helst er jafnvægi. Við viljum stöðugt hita- og rakastig og lítið af utanaðkomandi áreiti. Við leggjum mikið á okkur til að passa að allar geymslur haldi burtu vatni, vindi og veðrum.“

Keli er í góðum félagsskap í einangruninni.
Mynd/Anton Brink

Góðir hlutir gerast hægt

RÚV er sem stofnun farin að nálgast aldarafmælið og því ekki skrítið að mikið af sögu þeirra endi á Þjóðminjasafninu. Ágústa segir að mikið af spennandi hlutum hafi ratað á borð safnsins.

„Í árdaga útvarpsins þá var það viðtækjastofa RÚV sem framleiddi útvörp fyrir íslenskan markað. Við höfum til dæmis verið að fá hluta af þeim hingað til okkar.“

Stendur þá til að setja upp útvarps- og sjónvarpssögu sýningu?

„Eitthvað af þeim gripum sem við vorum að taka við gæti ratað inn á grunnsýninguna hjá okkur á næstu árum,“ segir Ágústa. „Þjóðminjasafnið er ein af elstu stofnunum landsins og við vinnum svolítið með það tímaplan. Góðir hlutir gerast hægt, og sumum finnst það kannski mjög hægt. En það er aldrei að vita nema eitthvað af þessum munum rati á Suðurgötuna á næstu árum.“