„Við sömdum við Daða Frey í nóvember í fyrra um að semja lag fyrir Barnamenningarhátíð 2020 en í millitíðinni hefur hann orðið heimsfrægur. Hann hefur samt algerlega staðið við allt þó hann geti auðvitað ekki flogið heim vegna COVID-19 heldur verður með lifandi tónleika á fésbókarsíðu hátíðarinnar,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar hjá borginni. Hún segir Daða alltaf vera í einhverjum heimsfjölmiðlum þegar hún hringi en hann svari henni samt. „Hann er bara frábær, alveg framúrskarandi. Það er ótrúlega súrt að geta ekki átt þá upplifun í Hörpu að hlusta á hann flytja lagið á sviði.“

Síðan lýsir Harpa Rut sögunni bak við textann, Hvernig væri það? „Það var ungt listafólk sem heimsótti alla fjórðu bekki í skólum borgarinnar og hélt fyrirlestra um hvernig börn eru að breyta heiminum í dag. Í framhaldinu fóru fjórðubekkingarnir í hugmyndavinnu með kennurunum sínum um það hvernig þeir vildu hafa heiminn. Daði fékk þær hugmyndir, náði algerlega kjarna þeirra inn í sinn texta og samdi lag við. Það er orðin svolítil hefð hjá Barnamenningarhátíð að vinna svona, í fyrra var afraksturinn lagið Draumar geta ræst, með Jóni Jónssyni.“

Getum ekki hóað mörgum saman

Harpa Rut segir hátíðina með talsvert öðru sniði en undanfarin ár, vegna aðstæðnanna í heiminum af völdum kórónuveirunnar. „Hátíðin fer þannig fram að henni verður dreift á lengra tímabil en fyrirhugað var, svipað og gert er með Listahátíð í Reykjavík. Við verðum ekki með viðburði í Hörpu og getum ekki hóað mörgum saman eins og venja er. En við vorum búin að úthluta styrkjum, eins og við gerum árlega, til þeirra sem vildu halda viðburði á Barnamenningarhátíðinni. Þeim stendur til boða að halda þá einhvern tíma í sumar, fram til 15. ágúst. Svo það verður barnamenning um alla borg í sumar. En vandinn er sá að við getum ekki auglýst því það mega ekki margir koma saman í einu. Það eru kannski bara börn úr einum skóla, svo við erum að reyna að aðlaga okkur að þessum breyttu aðstæðum.“

Vegna allra þessara takmarkana segir Harpa Rut ýmislegt hafa reynst flókið í skipulagningu. En nú séu sem sagt viðburðir Barnamenningarhátíðar að hefjast og frumflutningur Daða á hátíðarlaginu sé sá fyrsti. Síðan lýsir hún öðrum sem einnig verði nú í vikunni.

„Krakkar í leik-og grunnskólum og frístundaheimilum í borginni hafa verið að vinna með umhverfisvernd á listrænan hátt undir leiðsögn listafólks og sýning á þeirra verkum verður opnuð á Kjarvalsstöðum og í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Einnig verða krakkarnir með umhverfispólitískan viðburð í miðborginni. Þau eru búin að láta skera út pappaspjöld af ungum mótmælendum og ætla að bjóða fólki að taka við þeim og setja sig í spor ungu kynslóðarinnar sem er að berjast fyrir framtíð jarðarinnar.“

Ævintýrahöllin í lok júní

Meiningin var að vera með áherslu á Árbæinn á hátíðinni ár en það verkefni flyst aðallega fram á næsta ár, að sögn Hörpu Rutar. „Krakkarnir í Ártúnsskóla fá samt heimsókn fjölmiðla þegar þau verða á sal að hlýða á Daða,“ segir hún og heldur áfram. „Í lok júní verðum við svo með dagskrá í Árbæjarsafni. Við köllum hana Ævintýrahöllina, þar verður blanda af listviðburðum og gríni og glensi. Til dæmis verður sirkus og Gunni Helga verður í marki í fótbolta. Vonandi geggjuð stemning í boði Barnamenningarhátíðar og það verða ýmsir viðburðir í nafni hátíðarinnar í allt sumar. Dagskráin verður kynnt á barnamenningarhatid.is.

Allir verða að hlusta á Daða í dag.