Þrjátíu ár eru nú liðin frá því að leyft var að selja áfengi á nóttunni. Var það gert í júlíbyrjun árið 1979 að undirlagi Steingríms Hermannssonar dómsmálaráðherra. Undirbúningur að endurskoðun laganna var eitt af fyrstu embættisverkum Steingríms sem ráðherra. Fram að þeim tíma hafði aðeins verið heimilt að selja áfengi á veitingastöðum til klukkan 23.30 en með breytingunni var tíminn lengdur til klukkan 3.00 á föstudögum og laugardögum. Þá var vínveitingabann á miðvikudögum afnumið en vínveitingatími í hádeginu og síðdegis styttur til að koma til móts við óánægjuraddir.

Tilgangurinn var einfaldur með breytingunni: að auka frelsi og var sérstaklega horft til ferðamannaiðnaðarins í því samhengi. En víða erlendis þekktist að heimilt væri að selja áfengi fram á nætur. Var stefnan strax sett á að rýmka tímann á öðrum dögum vikunnar.

Steingrímur og Eiríkur Tómasson aðstoðarmaður. Mynd: Tíminn 15. júlí 1979.

Skömmu áður en lögin voru samþykkt hafði borgarstjórn samþykkt sams konar tillögu frá Sjálfstæðisflokknum. Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, benti á að þegar væru veitingastaðir opnir fram á nætur og þar væri mikið fyllerí þrátt fyrir vínveitingabann. Þáverandi löggjöf þjónaði því ekki tilgangi sínum.

Ekki voru allir sáttir við breytinguna. Þá sér í lagi þeir sem beittu sér almennt gegn áfengisneyslu og voru uggandi að sjá töluverða fjölgun vínsölubúða á áttunda áratugnum. Í viðtali við Alþýðublaðið sagði Ólafur H. Árnason, formaður áfengisvarnanefndar:

„Þetta er hlutur sem framkvæmdur var í öðrum löndum fyrir tíu árum og gafst illa. Þessi lönd eru nú þegar að þrengja þessar reglur sínar á meðan við stígum spor í hina áttina.“

Sumir vildu hins vegar ganga lengra í rýmkun áfengisreglna. Til dæmis hinir ungu þingmenn Vilmundur Gylfason, Ellert B. Schram, Eiður Guðnason og Friðrik Sophusson. Lögðu þeir fram frumvarp um að vínveitingatíminn yrði gerður algerlega frjáls og áfengiskaupaaldurinn færður niður í átján ár.

Helstu skemmtistaðir í Reykjavík árið 1979 voru Ártún, Glæsibær, Hollywood, Hótel Borg, Hótel Saga, Ingólfscafé, Klúbburinn, Leikhúskjallarinn, Óðal, Sigtún, Snekkjan og Þórscafé.