Bandalag kvenna í Reykjavík valdi nýlega Báru Tómasdóttur konu ársins fyrir framlag hennar í baráttu gegn ofnotkun róandi lyfja. Bára er móðir Einars Darra Óskarssonar sem lést í maí í fyrra eftir neyslu slíkra lyfja. Í kjölfarið stofnaði hún minningarsjóð um son sinn og setti forvarnarátakið Ég á bara eitt líf á laggirnar með það að leiðarljósi að varpa ljósi á fíkniefnavandann á Íslandi.

„Bára er baráttukona og hefur frá andláti sonar síns haft það að markmiði að fræða unga sem aldna um skaðsemi róandi lyfja og heldur fræðslufundi um málefnið um land allt,“ segir Fanney Úlfljótsdóttir, formaður BKR. „Það er ófært að ungmenni deyi vegna notkunar lyfja. Fræðsla um skaðsemi þessara efna þarf að vera hluti af skólagöngu barna og unglinga og við megum ekki sofna á verðinum,“ segir hún.

Hvatningarviðurkenningu BRB hlutu Píeta samtökin, þau sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja sömuleiðis við aðstandendur.