Vissulega er dálítið sérstakt að hugsa til þess að ég skuli hafa fylgt handritunum eftir. – Það er best að drífa sig til jarðar – vel Ísland! – Ég hef oft hugsað um það í seinni tíð hversu skemmtileg tilviljun það er en var ekkert meðvituð um það lengi vel,“ segir Eva María Jónsdóttir miðaldafræðingur sem verður fimmtug á mánudaginn. „Það fyndna er líka að kona sem fæddist í Danmörku 20. apríl 1971, síðasta daginn sem handritin voru þar, er komin hingað til lands og byrjuð að vinna hér í Árnastofnun. Það er líka tilviljun. Hún er danskur miðaldafræðingur.“

Þegar glittir í sálina

Hvað kom til að þú fórst í miðaldafræði? Leyndist alltaf í þér fornaldarþrá þegar þú varst að fíflast í sjónvarpinu eða varð einhver sérstakur atburður þess valdandi?

„Ég held að ég geti þakkað það því að hafa verið í góðum tengslum við eldri kynslóðir, afa, ömmur og fleiri ættingja. Það getur skilað sér. Auðvitað fannst mér sumt glatað sem gamla fólkið var að segja þegar ég var yngri en það hefur samt haft áhrif og ég held að það sé mikilvægt að þjóðsögur séu lesnar fyrir börn, að það sé farið með ljóð og gefinn gaumur að ýmsu sem er eilíft og tilheyrir okkar arfi. Það getur smitað þau síðar og orðið til þess að þau velja fag sem tengir þau enn dýpra við það efni.“

Eva María kveðst hafa reynt að vera í nútímanum langt fram eftir starfsferli sínum. „Svo þegar maður er búinn að vera lengi í argaþrasi nútímans og öllum þeim hraða sem því fylgir og jafnvel þjarkstemningu á köflum, þá er að gott að geta fengið meiri fjarlægð á umfjöllunarefnin og auðvitað finnst hún í því sem gerðist í fjarlægri fortíð. Í öllu er þessi sammannlegi undirstraumur og það gefur manni mikið að koma niður á hann reglulega. Ég er bara eins og gullgrafari. Við erum öll með sál og það er svo fallegt þegar glittir í sálina í manneskjunni, þá verður maður svo bjartsýnn. Það þarf að vera hið varanlega ástand.“

Hin línulega dagskrá

Maður Evu Maríu er Sigurpáll Scheving hjartalæknir, þau eiga samanlagt sjö börn. Eva María segir þau öll í námi og búandi í foreldrahúsum. „Flest þeirra eiga aðra foreldra þannig að þau eru ekki alltaf hjá okkur en þetta er stórt mengi sem er tengt tilfinninga- og blóðböndum,“ segir hún og bætir við: „Ég er heppin að hafa margt gott fólk í kringum mig og nóg af viðfangsefnum í samskiptum og nánd.“

Ekki kveðst hún geta haldið upp á afmælisdaginn eins og hún hefði kannski ímyndað sér fyrir COVID-19. „En ég mun geta haldið upp á hann á minn hátt. Ég ætla að reyna að upplifa sólarupprásina og sólsetrið á þessum degi. Það er hin línulega dagskrá sem náttúran er að bjóða upp á.“