„Fé­lagið okkar er 20 ára í nóvember á þessu ári, en við tökum að­eins for­skot á sæluna og höldum af­mælis­sýningu núna,“ segir Margrét Óskars­dóttir, for­maður Ís­lenska búta­saums­fé­lagsins.
Sýningin er opin frá 13 til 17 í dag, föstu­dag, og báða helgar­dagana í Há­sölum, safnaðar­heimili Hafnar­fjarðar­kirkju. „Við fáum hér á­gætt vegg­pláss og eitt­hvað leggjum við á borðin í kaffi­stofunni. Erum hér meðal annars með sett af verkum – svona sitt lítið af hverju – sem við fórum með til Birming­ham á sýningu. Við erum fé­lagar í European Qu­ilt Association og tökum þátt í sýningu á vegum þess sem hefur verið haldin ár­lega, þar til núna.“

Margrét nefnir líka tom­bólu á sýningunni þar sem verða engin núll. „Við seljum miða, fólk dregur númer og þá er lotterí hvað hver fær,“ út­skýrir hún. En býst hún ekki við vanda­málum við að halda fjar­lægðar­mörk? „Nei, þetta er nokkuð stór salur, það er leyfi­legt að 200 manns komi saman með meters­bili á milli, það verða nú ekki allir hér á sama tíma og við treystum því að fólk passi sig.“

Um 300 fé­lags­menn eru í hinu tví­tuga Ís­lenska búta­saums­fé­lagi, allt konur, nema einn, að sögn Margrétar. Auk þess segir hún klúbba víða um land og þar séu á­reiðan­lega eitt til tvö hundruð. En saumar hver í sínu horni eða er hist til að sauma? „Við hittumst einu sinni í mánuði í hús­næði Garð­yrkju­fé­lags Ís­lands. Þar er gott að vera. Þá er oft ein­hver fræðsla eða sýning. Svo er alltaf sauma­dagur í janúar og þá fáum við gjarnan kennslu í ein­hverjum að­ferðum. Þetta er mjög skemmti­legur fé­lags­skapur,“ lýsir hún.

Alltaf er þróun í greininni, að sögn Margrétar. „Búta­saumur er orðinn ó­hefð­bundnari en hann var í byrjun. Bæði eru nýjar að­ferðir til­komnar og efnin taka breytingum. Lengi vel voru þau mest í haust­litunum en nú eru komnir bjartari litir frá nýjum fram­leið­endum,“ segir hún. „Skandinavísk efni eru til dæmis skemmti­leg.“ Spurð hvort heimili búta­saums­fólks séu betrekkt með þráð­lista­verkum svarar hún: „Það er mis­jafnt, jú, eitt og eitt verk fer á vegg, eða dettur á borð og rúm. Það hefur ekki verið mikið um sölu búta­saumsvara, að ég held, þetta er meira til gamans gert og til að fegra og prýða.“

Ekki kveðst Margrét hafa orðið vör við að búta­saumur hafi goldið fyrir naum­hyggjuna sem ein­kennt hefur mörg heimili á þessari öld. „Við höldum okkar striki og búum til fjöl­breytt verk, eins og sjá má á þessari sýningu. Nokkrar konur eru farnar að gera and­lits­myndir, það er allt hægt. Hér eru hlutir bæði til nytja og skrauts.“

Margrét segir fé­lagið hafa efnt til sam­keppni í til­efni 20 ára af­mælisins. Verkin eigi að vera af vissri stærð og þema þeirra náttúra Ís­lands. Verð­launa­af hending verði á morgun, laugar­dag, í Há­sölum klukkan 14.30. Dómarar séu Helga Jóhanns­dóttir og Guð­rún Hannele og önnur hvor þeirra muni gera úr­slit kunn.