„Félagið okkar er 20 ára í nóvember á þessu ári, en við tökum aðeins forskot á sæluna og höldum afmælissýningu núna,“ segir Margrét Óskarsdóttir, formaður Íslenska bútasaumsfélagsins.
Sýningin er opin frá 13 til 17 í dag, föstudag, og báða helgardagana í Hásölum, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. „Við fáum hér ágætt veggpláss og eitthvað leggjum við á borðin í kaffistofunni. Erum hér meðal annars með sett af verkum – svona sitt lítið af hverju – sem við fórum með til Birmingham á sýningu. Við erum félagar í European Quilt Association og tökum þátt í sýningu á vegum þess sem hefur verið haldin árlega, þar til núna.“
Margrét nefnir líka tombólu á sýningunni þar sem verða engin núll. „Við seljum miða, fólk dregur númer og þá er lotterí hvað hver fær,“ útskýrir hún. En býst hún ekki við vandamálum við að halda fjarlægðarmörk? „Nei, þetta er nokkuð stór salur, það er leyfilegt að 200 manns komi saman með metersbili á milli, það verða nú ekki allir hér á sama tíma og við treystum því að fólk passi sig.“
Um 300 félagsmenn eru í hinu tvítuga Íslenska bútasaumsfélagi, allt konur, nema einn, að sögn Margrétar. Auk þess segir hún klúbba víða um land og þar séu áreiðanlega eitt til tvö hundruð. En saumar hver í sínu horni eða er hist til að sauma? „Við hittumst einu sinni í mánuði í húsnæði Garðyrkjufélags Íslands. Þar er gott að vera. Þá er oft einhver fræðsla eða sýning. Svo er alltaf saumadagur í janúar og þá fáum við gjarnan kennslu í einhverjum aðferðum. Þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur,“ lýsir hún.
Alltaf er þróun í greininni, að sögn Margrétar. „Bútasaumur er orðinn óhefðbundnari en hann var í byrjun. Bæði eru nýjar aðferðir tilkomnar og efnin taka breytingum. Lengi vel voru þau mest í haustlitunum en nú eru komnir bjartari litir frá nýjum framleiðendum,“ segir hún. „Skandinavísk efni eru til dæmis skemmtileg.“ Spurð hvort heimili bútasaumsfólks séu betrekkt með þráðlistaverkum svarar hún: „Það er misjafnt, jú, eitt og eitt verk fer á vegg, eða dettur á borð og rúm. Það hefur ekki verið mikið um sölu bútasaumsvara, að ég held, þetta er meira til gamans gert og til að fegra og prýða.“
Ekki kveðst Margrét hafa orðið vör við að bútasaumur hafi goldið fyrir naumhyggjuna sem einkennt hefur mörg heimili á þessari öld. „Við höldum okkar striki og búum til fjölbreytt verk, eins og sjá má á þessari sýningu. Nokkrar konur eru farnar að gera andlitsmyndir, það er allt hægt. Hér eru hlutir bæði til nytja og skrauts.“
Margrét segir félagið hafa efnt til samkeppni í tilefni 20 ára afmælisins. Verkin eigi að vera af vissri stærð og þema þeirra náttúra Íslands. Verðlaunaaf hending verði á morgun, laugardag, í Hásölum klukkan 14.30. Dómarar séu Helga Jóhannsdóttir og Guðrún Hannele og önnur hvor þeirra muni gera úrslit kunn.