„Þetta er á­fangi, hálf öld,“ segir Karl Ol­geirs­son, fimm­tugur í dag. „Mér finnst ég vera að breytast við þessa tölu.“

Til betri vegar?

„Ég veit það ekki alveg. Í staðinn fyrir að líta á það þannig að leiðin liggi eitt­hvað niður á við þá lít ég svo á að ég sé að snúa plötunni við og B-hliðin sé að byrja.“

Karl á ekki von á neinum ó­væntum upp­á­komum þar sem hann og Sig­ríður Ey­rún eigin­kona hans eru önnum kafin á af­mælis­deginum. Af­mælis­barnið tók þó for­skot á sæluna á mið­viku­dag.

„Það var al­gjör ó­vissu­dagur fyrir mig þar sem ég fór í ó­vænt nudd og lærði stepp­dans. Alveg yndis­legur dagur.“

Djössuð ætt­jörð

Af­mælið er ekki eina til­efni Karls til fagnaðar þar sem hann er einnig að gefa út nýja plötu í dag.

„Mér finnst voða gaman að hafa fengið þessa klikkuðu hug­mynd að gera plötu á fjórum vikum, geta gefið hana út og haldið tón­leika á af­mælis­daginn,“ út­skýrir hann.

Karl lýsir því þegar fjöl­skyldan var stödd í retró-bíl­túr á Þing­völlum ein­hvern sunnu­daginn að það fór að söngla í hausnum á honum djasss­legin út­gáfa af Öxar við ána.

„Ég hugsaði með mér að þetta yrði eigin­lega að vera til. Það var enginn að fara að gera þetta nema ég, svo annað hvort gerði ég þetta eða það yrði ekki til.“

Karl tók hug­myndina enn lengra og safnaði saman ætt­jarðar­lögum og þjóð­lögum tengdum Ís­landi og sló þeim upp í píanó­út­setningu.

„Þetta er svo­lítið kyrr­látt en alls ekkert leiðin­legt,“ segir hann. „Þarna má meðal annars finna Land míns föður, Blessuð vertu sumar sól og Ís­land far­sælda frón. Erfiðasta lagið fyrir mér var Smá­vinir fagrir því það stendur mér nærri og er per­sónu­legt lag. Ég vildi ekki gera það bara ein­hvern veginn en fann lendingu sem ég er rosa sáttur við og lagið opnar þannig plötuna.“

Einn með Bö­sendor­fer

Í upp­hafi var hug­myndin að platan yrði spiluð af tríói.

„Þegar ég leyfði Siggu að heyra demó þá stakk hún upp á að ég hefði þetta bara svona,“ segir Karl sem spilar einn á plötunni. „Ég bý svo vel að geta tekið mikið upp og mixað sjálfur. Ég fór í Salinn og tók upp á hinn geggjaða Bö­sendor­fer-flygil sem þar er að finna með hjálp frá Páli Einars­syni tækni­höfðingja þar á bæ.“

Í til­efni af út­gáfunni boðar Karl til tón­leika klukkan 17 í dag í Hörpu­horni, rétt fyrir utan Eld­borg.

„Þangað koma þeir sem vilja og eiga leið hjá og geta fagnað plötunni og af­mælis­deginum með mér. Það er besta út­gáfa af af­mælis­degi sem ég get í­myndað mér.“