Hún Margrét María Sigurðardóttir segir fegurðina guðdómlega sem við henni blasi út um glugga skrifstofunnar á nýja vinnustaðnum hennar á Eskifirði, yfir fjörðinn og á Hólmatindinn hinum megin. „Það var allt á kafi í snjó hér í gær, bara gaman að kynnast því aðeins. Snjór róar,“ segir hún jákvæð. Margrét tók við starfi lögreglustjóra á Austurlandi nú um mánaðamótin. Það kallar á búferlaflutninga af höfuðborgarsvæðinu. „Ég kem til með að búa hér á Eskifirði eða á Reyðarfirði, á bara eftir að finna mér hentugt húsnæði. Er í bráðabirgðahúsnæði eins og er og bý í tveimur ferðatöskum,“ segir hún hress.

Margrét er þekkt fyrir fyrri störf sín, meðal annars sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og umboðsmaður barna. Hún starfaði eitt sumar sem sýslumaður og lögreglustjóri á Ísafirði og hefur verið sýslufulltrúi hjá fjórum embættum, þá meðal annars með lögreglumálin. „Starfsferill minn hefur falist í rekstri ríkisstofnana,“ segir hún. „En tengist líka mannréttindum sterkt og málefni lögreglunnar eru þétt samofin þeim.“

Margrét er fædd og uppalin í Kópavogi en kveðst hafa búið víða úti á landi, á Húsavík, Ísafirði, Akureyri, Blönduósi og Seyðisfirði. „Fyrrverandi maðurinn minn var dýralæknir og fékk afleysingastörf hér og þar,“ útskýrir hún. „Lengst var ég á Húsavík og þegar ég skildi flutti ég til Akureyrar og bjó þar í fjögur ár, þannig að ég þekki landsbyggðina vel og þykir einstaklega vænt um hana.“ Hún segist líka eiga sögulegar rætur á Austurlandi. „Foreldrar mínir fluttu á Seyðisfjörð þegar ég var á 17. ári og bjuggu þar í átta ár. Mamma var sérkennari og pabbi sýslumaður og lögreglustjóri í Norður-Múlasýslu. Ég átti lögheimili þar og var þar alltaf eitthvað. Langafi minn, Ingvar Nikulásson, var prestur á Skeggjastöðum við Bakkafjörð og afi minn, Helgi, ólst þar upp. Hann lærði læknisfræði og ætlaði alltaf að koma til baka sem læknir austur á land en fékk berkla og lífið æxlaðist þannig að hann varð berklalæknir á Vífilsstöðum. Þessi þrá hans austur varð samt til þess að pabbi flutti á Seyðisfjörð og Austurlandið togaði í mig líka. Móðir mín lést í nóvember síðastliðnum, börnin mín eru uppkomin og nú fannst mér rétti tíminn til að sækja um hér.“

Umdæmi sýslumannsins á Austurlandi nær suður fyrir Djúpavog og norður að Bakkafirði, að sögn Margrétar. Meðal verkefna þess segir hún vera almannavarnir og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir, einnig fylgi ýmislegt ferjunni, þegar hún sé í förum, í sambandi við innflutning, ferðamenn og hælisleitendur.“ Starfsfólk embættisins skiptir tugum og er dreift. „Ég get ekki haldið starfsmannafund vegna faraldursins og ég náði heldur ekki að kveðja samstarfsfólkið í fyrra starfi, nema með tölvupóstum. Þetta er ekki skemmtilegt. Keyrði ein hingað austur, þorði ekki að fljúga. Reyni bara að fara eftir öllu sem mér er fyrirlagt af þríeykinu og held mig út af fyrir mig. Svo kemur maðurinn minn, hann er með vinnu sem hann getur unnið eitthvað gegnum netið. Allar þessar tæknilausnir sem við búum yfir eru það góða við tímana núna.“