Þegar Ivan Martynushkin, þá 21 árs liðsforingi, ásamt félögum sínum úr 322. riffildeild sovéska hersins kom að útjaðri fangabúðanna í Auschwitz þann 27. janúar 1945 mætti þeim þögn. Þeir færðust varfærnislega inn í búðirnar af ótta við fyrirsát nasista.

Í stað þýskra óvina rákust þeir að endingu á „nokkra menn á bak við gaddavír“. Nasistar höfðu rýmt búðirnar. Eftir voru 7.000 veikburða fangar og meira en 600 líkamshræ.

1,1 milljón morð

Á árunum 1940 til 1945 myrtu nasistar 1,1 milljón manns í gereyðingar- og þrælkunarbúðum Auschwitz. Flestir voru gyðingar en einnig var fólk af ýmsum þjóðarbrotum, samkynhneigðir og fatlaðir.

Auschwitz-búðirnar voru staðsettar um 50 kílómetra suðvestur af borginni Kraká. Stofnað var til þeirra vorið 1940 og fyrstu fangarnir komu þangað í maí það ár.

Í upphafi voru búðirnar einungis hugsaðar sem þrælkunarbúðir. Grimmdin og ómennskan var þar yfirgengileg. Búðirnar þróuðust síðan yfir í búðir sem miðuðu að útrýmingu, þó að einstaklingar væru líka nýttir sem vinnuafl. Að endingu voru búðirnar stækkaðar með svokölluðum Birkenau-dauðabúðum sem voru dauðaverksmiðjur með það markmið eitt að drepa með zyklon B gasi alla sem þangað komu. Fyrsta notkun á gasi til morða í Auschwitz hófst í ágúst 1941 með aftökum á sovéskum stríðsföngum.

Flestir sagnfræðingar segja árið 1941 markmið upphaf Helfararinnar. Það voru skipulögð fjöldamorð á evrópskum gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni sem liður í áætlun þýskra nasista undir stjórn Adolfs Hitler til þess útrýmingar gyðinga. Í árslok 1941 myrtu þýskar aftökusveitir Einsatzgruppen 500.000 – 800.000 gyðinga Austur- Evrópu. Svokölluð Wannsee ráðstefna sem haldin var í Berlín, Þýskalandi í upphafi árs 1942 markaði kaflaskil þar sem lagt var á ráðin með „lokalausn gyðngavandamálsins“ með þjóðarmorði á gyðingum. Frá þeim tíma voru gyðingar sendir með fraktlestum frá allri hernumdu Evrópu í þýskar útrýmingarbúðir í Póllandi: Auschwitz, Belzec, Chelmno, Majdanek, Sobibór og Treblinka. Flestir voru drepnir strax með gasi.

Pólski sagnfræðingurinn Franciszek Piper hefur áætlað, með því að skoða lestraráætlanir og upplýsingar um brottvísanir, að um 1,3 milljónir manna hafi sendar í Auschwitz-búðirnar, og að á árunum hafi 1.082.000 manna látist þar á árunum 1940 til 1945. Talan hefur verið námunduð við 1,1 milljón látinna en Piper taldi það lágmark. Flestir sagnfræðingar miða við þennan fjölda. Af þeim voru um 960,000 gyðingar, 74,000 Pólverjar, 21,000 Rómanar, 15,000 sovéskir stríðsfangar og aðrir Evrópubúar um 10,000.

Þegar Rauði herinn kom að útjaðri fangabúðanna í Auschwitz þann 27. janúar 1945 mætti þeim 7.000 veikburða fangar.
Fréttablaðið/Getty

Ummerkjum um ódæðisverkin eytt

Rauði herinn hafði frelsað fyrstu fangabúðir nasista sumarið 1944. Í lok júlí 1944 komu þeir að Majdanek-fangabúðunum sem voru þær fyrstu sem frelsaðar voru. Þá var blaðamönnum boðið að skoða búðirnar og sönnunargögn um hryllinginn sem þar hafði orðið. Síðar tóku Sovétmenn búðirnar í Belzec, Sobibor og Treblinka. Þjóðverjar höfðu tekið niður stærstan hluta þessara búða árið 1943, þegar flestir gyðingar Póllands höfðu verið drepnir.

Þegar Sovétmenn nálguðust Auschwitz reyndu Þjóðverjar að fjarlægja öll ummerki um ódæðisverkin. Gögn og skrár voru eyðilagðar. Gasklefar og líkbrennsluofnar í Birkenau voru sprengdir upp. Tíu dögum fyrir komu sovéska hersins yfirgáfu Þjóðverjar búðirnar og neyddu um 60.000 máttvana og aðframkomna fanga til dauðagöngu frá búðunum til vesturs. Því voru einungis sjö þúsund fangar eftir við komu Rauða hersins.

Deginum er ætlað að halda á lofti minningunni um þá glæpi sem þar voru framdir, grimmdinni sem þar geisaði og miska milljóna manna.

Vitnisburður um hryllinginn

Ivan Martynushkin og félagar í Rauða hernum áttuðu sig þó fljótt á hvað hafði gengið á í Auschwitz. Nægur vitnisburður var þó eftir, þar á meðal 368.820 flíkur af körlum, 836.255 kvenmannsföt og sjö tonn af mannshári.

Frelsun Auschwitz naut lítillar athygli í upphafi. Rauði herinn einbeitti sér að sókn gegn Þýskalandi og frelsun fangabúða var ekki meginmarkmið. Sagt var frá frelsun Auschwitz í sovéska dagblaðinu Pravda nokkrum dögum síðar, en ekkert var minnst á gyðinga heldur var föngum lýst sem fórnarlömbum fasismans. Það var ekki fyrr en bandalagsríkin frelsuðu Buchenwald-búðirnar, Bergen-Belsen og Dachau í apríl 1945 að frelsun búðanna fékk víðtæka alþjóðlega umfjöllun.

Alþjóðlegur minningardagur Sameinuðu þjóðanna um helför nasista miðast við þessa frelsun búðanna 27. janúar. Deginum er ætlað að halda á lofti minningunni um þá glæpi sem þar voru framdir, grimmdinni sem þar geisaði og miska milljóna manna.

Þegar Ivan Martynushkin, þá 21 árs liðsforingi, kom ásamt félögum sínum úr Rauða hernum að útjaðri fangabúðanna í Auschwitz þann 27. janúar 1945 mætti þeim þögn.
Nordicphotos/ Getty Images

Aðkoma Ivan Martynushkin

Þú myndir aðeins
mæta dauða.

Sótgrá þögn
gat vísað til víga.

Víðáttur illsku
vöktu grunlausan heim.

Valdimar Tómasson,
ljóðskáld, janúar 2020.