Jóhanna Bergmann, safnkennari á Þjóðminjasafninu, hefur langa reynslu af því að taka á móti skólahópum. Hún hefur unnið við safnastarf frá árinu 2002 og hefur nú unnið handbók sem ætluð er grunnskólakennurum um skapandi samstarf grunnskóla og safna um menntun barna. Handbókin nefnist Hugmyndahatturinn og í henni eru 28 dæmi um skapandi samstarf við grunnskóla frá söfnum víðs vegar á landinu. „Ég sé þörf á því að opna upp það form sem hefur verið á safnfræðslunni,“ segir Jóhanna. „Við höfum verið að bjóða kennurum að koma í ákveðnar heimsóknir sem við skilgreinum, en mig langar að sjá meira samtal við kennara um hvað myndi nýtast þeim betur í starfi með nemendum.“ Þá segir Jóhanna að það sé mikilvægt að söfnin virki nemendur meira.

„Ég myndi vilja innleiða meiri sköpun þar sem nemendur beita sér og rannsaka hlutina á skapandi hátt. Með þessari handbók langar mig að hvetja kennara til að koma til okkar í söfnin og efna til samtals svo að heimsóknirnar verði markvissari. Þá verðum við á söfnunum líka að hafa rými fyrir þessa sköpun.“ Jóhanna flytur fyrirlestur á Þjóðminjasafninu í hádeginu í dag þar sem hún mun gera grein fyrir tilurð og uppbyggingu Hugmyndahattsins. „Eitt af því sem ég mun tala um í fyrirlestrinum er samstarf sem Þjóðminjasafnið átti við Ísaksskóla þar sem nemendur komu í hverjum mánuði og voru alltaf að skoða nýja hluti,“ segir hún. „Söfn bjóða upp á góða tilbreytingu fyrir börn til að komast út úr skólastofunni. Ef maður nær að virkja forvitni hjá börnunum er hægt að hjálpa þeim að uppgötva nýja hluti og tengingar sem þau hafa ekki gert áður.“ Hugmyndahatturinn er unninn sem lokaverkefni Jóhönnu í kennslufræðum við listkennsludeild Listaháskóla Íslands og vonast hún eftir að geta gefið handbókina út rafrænt. „Ég stefni ekki að prentaðri útgáfu en vona að ég geti fengið stuðning fyrir rafræna útgáfu sem mætti nálgast ókeypis á vefsvæðum sem söfn og kennarar nýta sér.“