Föstudagurinn dimmi er tiltölulega ung hefð sem verður í heiðri höfð í Borgarbyggð í sjötta skipti í dag. Um er að ræða hátíð sem hefst árlega á föstudegi fyrir bóndadag og lagt er upp með að gefa raftækjunum hvíld og njóta myrkursins.
„Við hugsuðum með okkur að það væri skemmtilegt að hafa eitthvað á þeim árstíma sem er venjulega talinn frekar leiðinlegur,“ segir Eva Hlín Alfreðsdóttir sem er verkefnastjóri hátíðarinnar ásamt Heiði Hörn Hjartardóttur. „Við höfum lagt upp með að fagna því sem við höfum þá, og það sem við höfum nóg af á þessum tíma er myrkrið.“
Eva Hlín segir að í upphafi hafi verið pælingar um að hafa snjókastalakeppni en það sé þó ekki einu sinni hægt að ganga að snjónum sem vísum. „Við göngum þó alltaf að myrkrinu sem vísu,“ segir hún. „Þess vegna reynum við að létta undir á þessum tíma og fagna óhefðbundinni samveru.“
Vasaljósalýstur tröllasnáði
Til þessa hefur hver hátíð einkennst af einhvers konar þema sem dregur innblástur í þjóðlegar rætur. Í ár eru það tröllin sem hljóta að teljast viðeigandi, verandi myrkraverur. Nokkrir liðir hafa þó alltaf verið fastir, þar á meðal vasaljósagangan í gegnum Bjargsskóg.
„Þá búum við til leið í gegnum skóginn sem liggur á landi Heiðar Harnar að Bjargi,“ segir Eva Hlín. „Þá getur fjölskyldan komið saman með vasaljós og gengið leiðina í gegnum skóginn sem er vörðuð af endurskinsmerkjum.“
Undanfarin ár hafa Eva Hlín og Heiður Hörn tekið á móti leikskólahópum í skóginum með tilheyrandi kakóuppáhellingum, kökum og sögustundum, en vegna samkomutakmarkana gengur það ekki eftir í ár. Þær hafa þó ekki dáið ráðalausar heldur hafa þær sent efni til leikskólanna, til dæmis upptökur frá Hjörleifi sagnamanni og efni til gluggaskreytinga.
„Í ár er svo lítill Tröllasnáði falinn inni í skóginum og fólk er hvatt til að koma og finna hann og taka mynd af sér með honum,“ segir Eva Hlín. „Við höfum svo smá vinning til að hvetja fólk til að vera með.“
Rafmagnið fær hvíld
Eins og komið hefur fram var hátíðin upphaflega hugsuð sem eins konar áskorun til fólks um að hvíla rafmagnsdrifin samskipti og eiga í raunverulegum samskiptum hvert við annað. Aðstæður í faraldrinum hafa þó aðeins breytt þar til.
„Við gerum okkur grein fyrir því á hvaða tímum við lifum. Við erum búnar að láta aðeins undan og erum til að mynda komnar með myllumerki,“ segir Eva Hlín og hlær. „Samt leggjum við áfram áherslu á þetta. Þegar það voru hundrað ár liðin frá því að rafmagn var tengt á Borgarnes vorum við til að mynda með rafmagnslausan sólarhring þar sem við spurðum okkur hvað við gætum gert án þess.“
Eva Hlín segir að þótt að rafmagnsdrifin samskipti séu nánast óhjákvæmileg í dag hvetji þær fólk til að stunda raunveruleg samskipti í myrkrinu. „Það er ákveðin auðlind í myrkrinu,“ segir hún.
Föstudagurinn dimmi fékk á dögunum samstarfssamning við Borgarbyggð og segja Eva Hlín og Heiður Hörn það sýna að hátíðin hafi skotið rótum í byggðinni.
„Við erum voða montnar af að vera taldar þarna með,“ segir Eva Hlín. „Það er mikilvægt að við í Borgarbyggð höldum sögunum okkar á lofti fyrir komandi kynslóðir. Við búum á einum söguríkasta stað Íslands – hérna gerðust Íslendingasögurnar. Það er mikilvægt að miðla þessum arfi.“
Nánari upplýsingar um Föstudaginn dimma er að finna á Facebook-síðu hátíðarinnar.