Ljósmyndarafélag Íslands var stofnað 1926 af átján ljósmyndurum sem störfuðu flestir í Reykjavík. Félagið var stofnað fyrst og fremst sem hagsmunafélag ljósmyndara og beitti sér snemma fyrir réttindum á borð við lágmarksgjaldskrá og föstum frídögum um hátíðir og á sumrin.

Til stóð að félagið myndi fagna 95 ára afmæli sínu í fyrra en vegna faraldursins frestuðust hátíðarhöldin. Í tilefni af 95 ára afmælinu opnaði félagið samnorræna ljósmyndasýningu í Hörpu síðastliðinn febrúar sem stóð í tvær vikur. Í dag stendur svo yfir málþing í Hörpu þar sem fjórir fyrirlesarar koma fram og ræða ljósmyndatengd erindi.

Breyttar áherslur

„Félagið var í miklum blóma í kringum aldamótin 2000 þar sem mikið var um ljósmyndastarf og ferðir,“ segir Laufey Ósk Magnúsdóttir, formaður félagsins. „Á síðasta áratug var minna starf í félaginu, sem var á þeim tíma að styðja við ljósmyndara sem voru í málaferlum.“

Laufey Ósk segir að áherslur í félaginu hafi breyst og að nú sé félagslegi hlutinn í forgrunni.

„Síðustu fimm ár höfum við verið að einbeita okkur að sýningum og öðrum viðburðum til að reyna að efla félagið aftur, þar sem það kom í ljós að sú réttindabarátta var kannski ekki það sem ljósmyndarastéttin í heild sinni vildi,“ útskýrir hún. „Nú erum við að reyna að sameina alla í eitt félag og efla starfið á nýjan leik.“

Þróun og uppbygging

Ljósmyndarafélagið hefur sögulega ekki verið mjög fjölmennt enda hafa einungis þeir sem hafa full ljósmyndararéttindi verið gjaldgengir meðlimir. Í dag hefur félagið verið opnað fyrir öllum starfandi ljósmyndurum á landinu. „Við höfum verið að vinna í því að byggja starfið upp aftur og fjölga félagsmönnum sem voru komnir niður í tuttugu og fimm en eru nú um sextíu,“ segir Laufey Ósk.

Til næstu ára sér Laufey Ósk fram á að félagið muni beita sér fyrir fjölgun félagsmanna og myndun samstöðu innan stéttarinnar í heild sinni. Þá stendur einnig til að taka þátt í að innleiða breytingar sem koma að starfsnáminu, en ný reglugerð um það tók gildi árið 2021 sem gefur tækifæri til nýjunga.

„Það eru mögulegar breytingar fram undan er varða starfsnámið sem við munum þá þróa líklega næsta vetur í samvinnu við Tækniskólann og aðra sem sjá um þá kennslu. Það eru margar hugmyndir á lofti sem verður spennandi að vinna úr og gera ljósmyndun að enn öflugra fagi,“ segir hún.

Fyrsti íslenski atvinnuljósmyndarinn

Einn af helstu brautryðjendum í sögu íslenskrar ljósmyndunar var Sigfús Eymundsson, bóksali og ljósmyndari. Hann fór til Kaupmannahafnar 1857 til að nema bókband og ferðaðist fjórum árum síðar til Noregs til að nema ljósmyndun. Í Kaupmannahöfn rak hann ljósmyndastofu í eitt og hálft ár áður en hann flutti aftur til Íslands 1866.

Ári eftir að hann sneri heim opnaði Sigfús fyrstu ljósmyndastofuna í Reykjavík og varð þar með fyrsti atvinnuljósmyndari Íslands. Hann framleiddi meðal annars myndir af fornsagnahetjum, embættismönnum, skáldum og fleiri og ruddi braut fyrir mannamyndir á Íslandi. Þá var hann einnig duglegur við að fara út á meðal fólks og mynda fólk að störfum. Sigfús opnaði einnig bókaverslunina Eymundsson sem er enn rekin í dag.