Mahler, Páll Ísólfsson og Sibelius eru höfundar þeirra verka sem flutt verða á hátíðatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld. Hin finnska Eva Ollikainen heldur um tónsprotann.

„Þetta er afar glæsilegt prógramm,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, sannfærandi, þegar hún næst í smáviðtal að loknum einum af fundum dagsins. „Hljómsveitin verður stór, stundum krefjast verk þess og þannig er það í Sinfóníu nr. 1 eftir Mahler, þar er bætt við strengjum og hornum. Við erum alltaf með gott fólk á kantinum sem stekkur inn í þegar þörf krefur,“ segir hún og lýsir dagskránni frekar. „Fiðlusnillingurinn Augustin Adelich kemur frá Ítalíu og spilar fiðlukonsert Sibeliusar. Þriðja verkið, Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar, eftir Pál Ísólfsson, er sjaldheyrt, en það er gaman að fá að hlýða á það á þessum tímamótum enda er þáttur Páls í sögu Sinfóníuhljómsveitarinnar stór.“

Frá fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Austurbæjarbíói 9. mars 1950.

Á laugardögum er Sinfóníuhljómsveitin jafnan með opið hús í Norðurljósasal Hörpu og á laugardaginn verður stundin með afmælisívafi,“ að sögn Láru Sóleyjar. Hún rifjar upp að Sinfónían hafi farið í frækilega tónleikaferð til Bretlands í febrúar. „Það var partur af hátíðahöldunum hjá okkur,“ segir hún og bætir við: „En það er ekki bara Sinfóníuhljómsveitin sem fagnar stórafmæli á þessu ári, heldur líka Íslenska óperan og Listahátíð í Reykjavík, fyrir utan Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Við verðum með uppsetningu á Valkyrjunum eftir Wagner í maí, í samstarfi við Listahátíð og Íslensku óperuna og sú uppsetning er líka þáttur í afmælishaldinu.“

Það er á sjötugasta afmælisárinu sem kona er í fyrsta sinn ráðin í stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Eva Ollikainen, stjórnandi kvöldsins, tekur við því embætti í byrjun nýs starfsárs. Ég bið Láru Sóleyju að fræða mig um hana. „Eva stjórnaði Sinfóníunni á einum tónleikum á síðasta starfsári og eitt sinn í Háskólabíói, þannig að hún á smá sögu með sveitinni. Hún er búsett í Danmörku, en mun stjórna sveitinni ákveðinn fjölda vikna á næsta starfsári og er líka listrænn stjórnandi, tekur þátt í verkefnavali og fleiru.“

Bjarni Frímann aðstoðarhljómsveitarstjóri er mikilvægur Sinfóníuhljómsveitinni og stýrir sífellt fleiri tónleikum, að sögn Láru Sóleyjar. „Draumur okkar er að byggja upp áhuga og tækifæri fyrir fólk að sækja sér þekkingu í hljómsveitarstjórn, það er eitt af markmiðunum,“ segir hún og upplýsir að Sinfónían sé þessar vikurnar að leggja lokahönd á stefnuskrá til næstu ára. Það sé meðal þess sem hljómsveitin gefi sér í afmælisgjöf.

Lára Sóley tók við stöðu framkvæmdastjóra sveitarinnar síðasta haust og kveðst kunna vel við sig. „Þetta er afskaplega fjölbreytt starf því það er í mörg horn að líta, en hver einasti dagur er skemmtilegur. Ástríðan er mikil hjá öllum fyrir starfinu sínu, allir leggjast á eitt við að láta hlutina gerast og ganga upp. Það er dýrmætt að vinna í svoleiðis umhverfi.“