Flug vekur áhuga margra. Fæstir hafa sérþekkingu á því eða kunna að fljúga en fólki finnst það spennandi og ánægjusvipur þess leynir sér ekki þegar það fer hér í gegn,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir sem er nýlega tekin til starfa sem safnstjóri Flugsafnsins á Akureyri. Hún er með BA-gráðu í sagnfræði og safnafræði frá Aarhus Universitet, auk þess sem hún hefur lagt stund á meistaranám í safnafræði við Háskóla Íslands. Undanfarin fimm ár hefur hún starfað sem fagstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði.

Steinunn segir eigin flugáhuga hafa aukist í seinni tíð, enda sé eiginmaðurinn, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, flugmaður og hann reki lítið flugfyrirtæki. „Flugheimurinn er orðinn fyrirferðarmeiri í lífi mínu en áður og ég er farin að fljúga meira en ég gerði. En ég er úr sjómannafjölskyldu og hef starfað í Síldarminjasafninu svo mér er tamara að tala um fiska og báta en flug. En þessi svið eru lík að því leyti að það er sértækur orðaforði í þeim báðum og ég læri þennan nýja hægt og rólega. Það er gott að geta spurt Þorvald ef einhver orð vefjast fyrir mér og svo er ég, sem betur fer, umvafin mönnum sem koma reglulega í kaffi á safnið og eru hafsjór af fróðleik. Að safninu standa nefnilega hollvinasamtök og það er dýrmætt hverju safni að eiga slíkan hóp.“

Steinunn tók við keflinu af Gesti Einari Jónassyni sem hafði sinnt safnvörslunni í 10 ár og hún reiknar með að hann kíki í kaffi. „Gestur Einar verður alltaf órjúfanlegur hluti af þessu safni á einn eða annan hátt og ég á örugglega eftir að læra margt af honum,“ segir hún.

Reglulegur opnunartími er á Flugsafninu frá maí út september. Yfir veturinn er opið milli 14 og 17 á laugardögum, annars eftir samkomulagi. „Í þessum heimi lærist manni fljótt að vera sveigjanlegur og reyna að opna þegar fólk kemur.

Ég er hér á dagvinnutíma og ef fólk kemur hleypi ég því inn ef ég hef tækifæri til,“ segir Steinunn og kveðst þó alltaf hafa nóg annað að sýsla. „Okkur er ætlað að sinna fimm grunnstoðum safna, að varðveita, skrá, rannsaka og miðla. Það er heljarinnar vinna. Við erum svo heppin að hollvinasamtökin vinna að viðhaldi á ýmsu hér og svo koma flugvirkjanemar í janúar á hverju ári til að skoða og læra. Þetta er mjög lifandi staður, alltaf eitthvað um að vera, menn eru hér að laga og taka til, smíða módel eða hvað annað sem liggur fyrir, þannig að ég er sjaldnast ein. Fólk hefur ástríðu fyrir safninu, maður finnur það glöggt, enda er vagga innanlandsflugsins á Akureyri.“

Flugsafnið er ríkt af alls konar gripum, bæði smáum og stórum. Steinunn segir safnmuni stöðugt að berast og það sé af hinu góða. Fólk hafi safnið í huga þegar það sé að taka til. Hún bendir á að til séu samtök íslenskra sjóminjasafna, enda séu mörg slík í landinu en bara eitt stórt flugsafn. Þess vegna hafi það svo stórt hlutverk. „Við erum að varðveita gripi sem eru mikilvægir í sögulegu samhengi – flugfélög koma og fara og hingað berast gripir sem eru ekkert endilega mjög gamlir en eru samt hluti af sögunni og fólk leyfir okkur að meta varðveislugildi þeirra áður en það hendir þeim.“

Spurð hvort einhver safngripur fái athygli umfram annan nefnir Steinunn svifflugu sem hangi niður úr loftinu. „Svifflugan var smíðuð hér á Akureyri á fjórða áratugnum og er afskaplega fallegur gripur. Svo eru hér vélar frá Landhelgisgæslunni, bæði Fokker og björgunarþyrlan Sif. Þær hreyfa við fólki. Hingað hefur komið fólk sem þyrlan hefur bjargað og það hafa verið lögð blóm við hana. Ekki náttúrlega í minni tíð, enda er ég bara búin að vera hér í nokkra daga. Fólk má ganga um Fokkerinn svo það er ekki þannig að fólk megi bara horfa en ekkert snerta.“