​Ásgeir Tómasson

Fæddur 29. mars 1929 - Látinn 23. febrúar 2018. Jarðsunginn 5. mars 2018.

Ásgeir Tómasson fæddist 29. mars 1929 á Reynifelli á Rangárvöllum. Hann lést föstudaginn 23. febrúar síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík. Foreldrar hans voru Tómas Sigurðsson, f. 21. 6. 1890,  d. 6. 1. 1983, frá Árkvörn í Fljótshlíð og síðar bóndi á Reynifelli og kona hans Hannesína Kristín Einarsdóttir, f. 24. 7. 1904, d. 16. 11. 1990, ættuð frá Neðra-Hreppi í Skorradal í  Borgarfirði. Systkini Ásgeirs nú látin, voru Sigurður, f. 9. 12. 1925, d. 29. 8. 2012, Guðjón Ársæll, f. 30. 10. 1933, d. 29. 1. 2017, Guðrún Magnea, f. 29. 4. 1935, d. 28. 12. 2011 og Ármann Reynir, f. 18. 2. 1943, d. 13.10. 1999. Eftirlifandi eru Fanney, f. 24. 9. 1930, Trausti, f. 31. 5. 1939, Unnur, f. 22. 12. 1940 og Birgir, f. 11. 9. 1944. 

Ásgeir var uppalinn í foreldrahúsum á Reynifelli og sinnti fljótt almennum bústörfum með foreldrum sínum og systkinum. Um vetrartímann fór hann á vertíð til Vestmannaeyja og líkaði vel. Ásgeir tók við öllum búskap á Reynifelli árið 1961 og bjó þar til ársins 1976, þegar hann flutti  niður í Fljótshlíð og vann þá mest við skógrækt á Tumastöðum, þar til hann hóf búskap í Kollabæ í sömu sveit árið 1998. Útför Ásgeirs er frá Kópavogskirkju í dag, 5. mars, og hefst athöfnin kl. 13.00.

Elsku besti Geiri, einn af uppáhaldsfrændum mínum. Nú hefur þú kvatt okkur saddur lífsdaga. En fram á síðasta dag varstu eins og alltaf, leifturklár í kollinum og sposkur á svip. Fyrstu minningarnar og trúlega ástæða þess að þú skipaðir þér öruggan sess með uppáhaldsfrændunum, var að þú skildir fljótt dýraáhuga minn. Á leið úr réttum að hausti, ég trúlega fjögra ára, kipptir þú mér fram fyrir þig á hnakknefið. Mér fannst þú mikið góður að taka eftir mér og leyfa mér á bak. Hvatning þín og stuðningur átti án efa mikinn þátt í að áhuginn á hestum og dýrum bara efldist. 

Ég var svo sex ára þegar ég fór norður í land í sveit hjá föðurfjölskyldu þar sem ég dvaldi í 8 sumur. Þú komst líka í heimsókn þangað og tókst góður vinskapur milli þín og míns góða frændfólks. Fram á síðasta dag bar ég kveðjur ykkar á milli. 

Síðar átti ég orðið tvo hesta sjálf, en flutti til útlanda til náms í dýralækningum. Hryssurnar mínar voru í hagagöngu á Suðurlandi en ekki vildi betur til en að sú yngri, öllum að óvörum, kastaði folaldi seint í nóvember. Þú bjargaðir mér og tókst þau mæðgin að þér. Hestfolaldið, hann Blakkur, varð einn af þínum uppáhalds reiðhestum og var ekki felldur fyrr en í hárri elli. En það átti nú eiginlega við alla þína hesta og skepnur. Þetta voru fyrst og fremst sannir vinir þínir sem þú dekraðir við eins og börnin þín, enda komu kindurnar þínar þegar þú kallaðir þótt þær stykkju á braut ef aðrir nálguðust. Þegar ég var löngu síðar starfandi dýralæknir þá fékk ég að njóta að vera þér til aðstoðar í sauðburði ásamt móður minni, dóttur og vinkonu hennar. Þetta var hápunktur ársins sem dóttir mín beið með óþreyju vetur hvern. 

Eftir nokkur vor í sauðburði voru hnáturnar litlu orðnar býsna lunknar að sjá hvort allt væri með felldu eða ekki, enda með góðan lærimeistara. Söknuðurinn var held ég, jafn mikill hjá þeim og þér þegar þú varðst að bregða búi og selja féð vegna heilsubrests. Góð huggun var þó að féð fór til góðs frænda okkar í Hlíðinni og stelpurnar tvær héldu áfram að vakta þær í sauðburði nokkur ár enn. 

Þegar þú svo komst í höfuðborgina bjóstu til skiptis hjá okkur og bróður þínum kæra. Þá komstu meira en gjarna með okkur í hesthúsið og áður en maður vissi af varstu stokkinn í hlöðuna og farinn að græja næstu gjöf. Þú komst líka með okkur í hestaferð þó þú værir þá nýhættur að fara á bak sjálfur, sast keikur í trússbílnum og sagðir sögur milli stoppa og hvattir ungviðið til dáða á baki. 

Elsku Geiri frændi, þú skipaðir sérstakan sess. Þú áttir stökur og vísur við hvert tækifæri og þreyttist aldrei á að segja mér þær aftur og aftur þó ég gleymdi þeim jafn óðum. Enda mundir þú allt, alltaf og fram á síðustu stund þá hafðir þú fulla yfirsýn hvað fór fram. En þú varst sáttur við að langt og litríkt líf væri að enda komið. Þegar við kvöddumst í hinsta sinn hélstu lengi í hönd mína, klappaðir mér á handarbakið og sagðir mér að fara gætilega. Sólarhringnum síðar varstu farinn á vit góðra vina, tví- og ferfættra. 

Hvíl í friði elsku frændi og takk fyrir allt!

Þóra Jónasdóttir

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing

Fleiri minningargreinar

Steingerður Jónsdóttir

Gunnar Guðlaugsson

Páll Sigurður Jónsson

Kristín Agnes Samsonardóttir (Ninna)

Þórhildur Sigurjónsdóttir

​Kristín Hólmfríður Tryggvadóttir

Auglýsing