Það fattaðist um daginn að við ættum afmæli. Við vorum búnir að ákveða að halda tónleika, svo bara leit einhver á almanak og áttaði sig á að það væru einmitt 20 ár síðan við komum fyrst fram allir saman. Þessi ár hafa einhvern veginn flogið hjá,“ segir Magni Ásgeirsson söngvari í hljómsveitinni Á móti sól.

Eftir sveitina liggja átta breiðskífur. Tvær þeirra, 12 íslensk topplög og Hin 12 topplögin, sem seldust í bílförmum á sínum tíma, verða teknar fyrir á tónleikaröð sem hefst í Bæjarbíói í Hafnarfirði annað kvöld, 13. september, í tilefni af 15 ára útgáfuafmæli þeirra.

Hljómsveitin heldur líka upp á þessi afmæli með því að gefa út nýtt lag, Þetta þokast, og Magni segir það hafa heldur betur þokast upp vinsældalista á útvarpsstöðvum síðustu vikurnar. „Það er gaman að vera inni á topp tíu listanum á tuttugu ára afmæli sveitarinnar.“

„Það var hringt í mig, ég skrapp til Reykjavíkur og hitti þessa vitleysinga og sjö dögum seinna söng ég á fyrsta ballinu með þeim,“ rifjar Magni upp.

Þegar Magni lítur í baksýnisspegilinn yfir árin 20 segir hann þau hafa verið ótrúlegan rússibana. „Ég fór bara beint í að vera í hljómsveitarrútu í fimm manna hópi og spila um hverja einustu helgi í einhver ár, oft tvö kvöld í röð. Stórkostlega skemmtilegt. Líklega erum við að verða með langlífustu sveitum nútímans, án þess að taka nokkurn tíma hlé. Auðvitað er minna að gera síðari árin en í upphafi, tími sveitaballanna er liðinn í þeirri mynd sem þau voru en þegar fólk vill dansa, eins og á skólaböllum, árshátíðum og þorrablótum, þá er hóað í okkur. Svo erum við á Græna hattinum og í Bæjarbíói í Hafnarfirði, það er æðislegt að spila þar. Eiginlega er nýtt fyrir okkur að vera tónleikahljómsveit en bara frábært, þangað til fólk missir sig og byrjar að dansa í bíósalnum!“

Magni býr á Akureyri og rekur, ásamt félögum, tónlistarskólann Tónræktina, þar kenna þeir nýrri kynslóð poppara. „Við búum hérna fyrir norðan, hjónin, og eigum fjóra stráka, það eru Bítlarnir! Eru reyndar aðallega í fótboltanum enn, hitt kemur.“

Magni ólst upp á Borgarfirði eystri og rifjar upp hvernig hann var uppgötvaður. „Ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og hafði sungið þar, var í bandi sem hitaði upp fyrir Skítamóral og gaurarnir þar sögðu strákunum í Á móti sól frá mér þegar þá vantaði söngvara í stað þess upprunalega. Það var hringt í mig, ég skrapp til Reykjavíkur og hitti þessa vitleysinga og sjö dögum seinna söng ég á fyrsta ballinu með þeim. Þetta var ekki langur aðlögunartími en síðan hefur eiginlega ekki verið stoppað. Ég var bara eitthvað að dunda mér, klára menntaskólann og velta fyrir mér hvað ég ætti að stefna á í framtíðinni. Það er voða gott þegar einhver segir manni hvað maður eigi að gera.“

Magni kveðst ánægður með nýja lagið, Þetta þokast. „Ég held það sé með þeim skárri sem ég hef samið, þetta bara sprakk út úr mér á einhverjum klukkutíma. Ég hugsaði það sem framhaldið á Álfheiði Björk!“