Ár kanínunnar gekk nýlega í garð samkvæmt kínverska tímatalinu. Í tilefni af því mun Konfúsíusarstofnunin Norðurljós halda upp á kínverska nýárið með nýárshátíð á Háskólatorgi í dag þar sem gestir geta kynnst kínverskri menningu betur.

„Við höfum verið að halda þessa hátíð síðan kannski 2009,“ segir Magnús Björnsson, forstöðumaður stofnunarinnar. „Það var auðvitað smá stopp á því í faraldrinum en við getum nú endurvakið hefðina eftir þrjú ár.“

Magnús segir að hátíðarhöld í kringum kínverska nýárið hafi á undanförnum áratug verið að ryðja sér rúms í löndum utan Asíu.

„Eftir því sem Kínverjum fjölgar erlendis þá verður fólk meira vart við þessa hefð,“ útskýrir hann.

Gott og gjöfult ár í vændum

Kínverska nýárið, eða Vorhátíðin eins og hún er stundum kölluð, er stærsta hátíð Kínverja og er því mikið gert úr henni ár hvert.

„Ástæðan fyrir því að hún er haldin á þessum tíma er að þeir styðjast við tungldagatal og því er dagsetningin breytileg,“ segir Magnús um tímamótin sem stundum eru kölluð nýtt tunglár. „Þetta er fimmtán daga tímabil sem haldið er upp á þetta og við förum að nálgast endann á því núna.“

Magnús segir ár kanínunnar boða eitt og annað.

„Ár kanínunnar er almennt talið nokkuð gott og gjöfult. Það er einnig talið friðsamlegt, sem er ágætt miðað við stöðuna í heiminum í dag. Fólk tekur til hendinni því að rétt eins og í kanínunni getur verið kraftur í fólki.“

Drekadans og tesmökkun

Hátíðin í dag stendur yfir milli klukkan 14 og 16 og hefst með dagskrá á sviði.

„Þetta byrjar á drekadansi innandyra en við sjáum til eftir veðri hvort hann fari eitthvað út. Við viljum síður að hann fjúki út í buskann,“ segir Magnús og hlær. „Síðan taka við kínversk tónlistaratriði. Við erum með kennslu á ýmsum stigum skólakerfisins og verðum til dæmis með grunnskólabörn sem syngja á kínversku.“

Þá verður einnig boðið upp kínverskra skrautskrift, matarmenningu, tesmökkun og fleira. Magnús segist aðspurður hafa fundið fyrir auknum áhuga á kínverskri menningu á Íslandi á undanförnum árum.

„Þetta kemur auðvitað aðeins í bylgjum en ef maður horfir aftur í tímann þá er það ekki spurning,“ segir hann. „Kína er farið að taka meira pláss í fjölmiðlum og þá eykst áhugi fólks auðvitað.“