Ef lögreglan kemur ekki þá þýðir það að hún er hrædd. Og það er af því að við sýnum samstöðu.“ Þetta var hrópað af stigapalli við Vatnsstíg 4 í Reykjavík á þessum degi fyrir áratug. Þar hafði hópur ungmenna gert sig heimakominn í tómu húsi.

Til stóð að rífa húsið og byggja verslunar- og íbúðarhúsnæði. Eigandi hússins óskaði eftir að lögregla gripi til aðgerða því að fólkið væri í húsinu á hans ábyrgð.

„Í vetur hef ég verið látinn koma útigangsfólki út sem hefur borist þarna inn og halda húsinu lokuðu. Ég sé engan mun á því fólki og þessu,“ sagði Ágúst Friðgeirsson, eigandi hússins. Húsið er enn tómt í dag.

Daginn eftir lét lögregla til skarar skríða og braut sér leið inn í húsið. Ljósmyndarar Fréttablaðsins náðu myndum af því þegar hústökufólkið var dregið út úr húsinu og þótti sumum að lögregla hefði gengið heldur hart til leiks:

Lögregla braut sér leið inn í húsið þann 16. apríl 2009.
FRÉTTBLAÐIÐ/VILHELM

„Okkur fannst mjög, mjög óréttlátt,“ útskýrði Tómas Daði Halldórsson fyrir blaðamanni Fréttablaðsins, „að meðan bankarnir eru að draga fjölskyldur út af sínum heimilum vegna skulda eru yfir níu þúsund tómar íbúðir í Reykjavík sem er verið að láta grotna niður svo að einhverjir viðskiptajöfrar geti byggt sinn viðbjóð, einmitt þegar okkar samfélag þarf ekki meira af slíku.“

Um 40 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum, tveir leituðu læknisaðstoðar vegna meiðsla sem þeir hlutu við handtökurnar. Hústökufólk sprautaði úr duftslökkvitæki á lögreglu þegar hún kom að þeim og lögreglan beitti piparúða. Bergljót Þorsteinsdóttir, sem kom að og sá þegar gatan var rýmd fyrir lögreglubíl sem fór á brott með þá handteknu, segir að aðfarir lögreglu hafi verð allt of harkalegar. „Hverra hús? Okkar hús,“ hrópuðu hústökufólk og mótmælendur.