„Litlu munaði að liðsmönnum Írska lýðveldishersins (IRA) tækist að ráða John Major, forsætisráðherra Bretlands, og stríðsráðuneyti hans af dögum í sprengjuárás á bústað hans í Downingstræti 10 í miðborg Lundúna í gær,“ sagði á forsíðu Morgunblaðsins þann 8. febrúar árið 1991.

Heimagerðum sprengjum var varpað á bústað forsætisráðherra á þessum degi fyrir 28 árum í von um að myrða Major og fyrrnefnt stríðsráðuneyti þar sem þeir funduðu um Persaflóastríðið. Ein sprengjan sprakk í bakgarði hússins, fáeinum metrum frá fundarstaðnum. En þar sem gluggar hússins eru sprengjuheldir sakaði engan valdamannanna. Enginn lét heldur lífið í árásinni en fernt særðist.

IRA-liðar höfðu áður nýtt sams konar sprengjur í átökunum á Norður-Írlandi (e. The Troubles). Þetta var fyrsta slíka árás þeirra á Englandi þótt IRA hafi vissulega gert annars konar árásir fyrr.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins gaf IRA út yfirlýsingu um málið þar sem fram kom að árásin hafi verið á dagskrá frá því Major tók við forsætisráðuneytinu af Margaret Thatcher. Sú hafði lengi verið helsta skotmark IRA-liða. Major sagði á breska þinginu í kjölfar árásarinnar að ríkisstjórn hans „myndi hvergi hvika frá þeirri staðföstu stefnu sinni að verja lýðræðið og knésetja hryðjuverkaöflin“, sagði í Morgunblaðinu. –