Anna Kristín Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 03. júní 1931. Hún lést 12. júlí síðastliðinn á Hrafnistu í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, f. í Krossgerði, Beruneshreppi, S-Múlasýslu, 08. janúar 1879, d. 06. janúar 1964 og Ingibjörg Eyjólfsdóttir f. á Gufuskálum 14. nóvember 1895 d. 04. febrúar 1966. Systkini Önnu Kristínar eru Guðný Jónsdóttir f. 11. mars 1921, d. 12. apríl 2014, Sigrún Jónsdóttir f. 22. ágúst 1923, 22. mars 2015, Málfríður Jónsdóttir f. 23. júlí 1927, d. 26. október 2012, Guðmundur Jónsson f. 11. mars 1929, d. 28. desember 2016.

Anna Kristín giftist 25. ágúst 1983 Jóni Þórðarsyni skipasmið f. á Tindum í Neskaupstað 2. apríl 1931, d. 28. október 2001. Þeim varð ekki barna auðið.

Útför Önnu Kristínar fer fram frá Breiðholtskirkju föstudaginn 2. ágúst og hefst athöfnin kl. 13:00Önnu kynntist ég þegar ég var um það bil tveggja ára gömul þegar við foreldrar mínir fluttum í sama stigagang og þau Jón, eiginmaður hennar, bjuggu. Það má segja að börnin í stigaganginum og þá sérstaklega ég og seinna bróðir minn, höfum laðast að Önnu og Jóni, enda voru þau einstök þegar kemur að börnum þó þau hafi ekki eignast börn sjálf.

Á tímabili leið varla dagur án þess að ég sagði við mömmu og pabba að ég ætlaði "upp til Önnu og Jóns" og það þurfti ekkert sérstakt tilefni heldur var það bara til þessa að eiga notalega stund í smá dekri hjá þeim. Á þessum tíma þróaðist vinskapur með þeim hjónum og okkur mér og foreldrum mínum. Það voru auðvitað forréttindi að eiga hana Önnu að fyrir svona stelpuskottu sem var oft ein heima eftir skóla á daginn á meðan foreldrarnir voru enn að vinna, en Anna var heimavinnandi og alltaf til taks. Hún kenndi mér hinar ýmsu vísur og hún söng mikið fyrir mig, fléttaði hárið mitt og átti alltaf eitthvað góðgæti.

Svo fæddist Jakob bróðir minn nokkrum árum seinna og áttu þau Anna og Jón alveg einstakt samband við hann frá upphafi. Hann þvældist með þeim hingað og þangað um landið í ferðir með Kvæðamannafélaginu og öðrum félagsskap sem þau hjónin voru í, alveg frá unga aldri. Og það má segja að hann hafi tekið við af mér þegar ég komst á gelgjuna og farið að skreppa "upp til Önnu og Jóns" í tíma og ótíma.

Sambandið við þau hjónin þróaðist út í mjög dýrmætan vinnskap og miklu meira en það. Þau urðu partur af okkar fjölskyldu og deildu með okkur öllum hátíðum og viðburðum. Það hefur alltaf reynst mér nokkuð erfitt að útskýra tengsl mín við Önnu fyrir fólki þar sem mér finnst "vinkona" ekki nægilega lýsandi fyrir þetta samband.

Anna hefur verið mér og bróður mínum sem eins konar auka amma og eldri börnin mín, sem eru unglingar í dag, héldu lengi vel að hún væri ein af langömmu hópnum þeirra.

Í dag fylgjum við því Önnu eða ömmu til grafar og kveðjum í hinsta sinn og ég ætla að trúa því að nú sért þú, Anna mín, komin til hans Jóns þíns og ég segi við þig eins og þú sagðir við mig nokkrum dögum fyrir andlát þitt, "ég bið að heilsa."

Fanney Friðþórsdóttir