Elsku Anna æskuvinkona okkar er látin. Það er óendanlega sárt að kveðja hana. Anna var á margan hátt límið í vinkvennahópnum. Hópi sem fylgdist að frá æskuárum, sumar alla leið úr Breiðagerðisskóla þótt hópurinn hafi ekki verið fylltur fyrr en á fyrstu metrunum í Réttarholtsskóla.

Undanfarnar vikur höfum við rifjað upp fjölda fallegra minninga af vinkonu okkar. Af hlýju æskuheimili Önnu í Goðalandinu, sem var framandi og listrænt - og sá staður sem við fengum fyrst að smakka hvítlauk, minningar af ferðalögum og gleðistundum. Þakklæti er ofarlega í huga þegar við minnumst Önnu. Samfylgd okkar og vinátta er þroskasaga okkar allra, frá barnæsku til fullorðinsára. Vinátta þar sem engu skipti þótt langt liði milli samverustunda.

Anna hafði svo mikið að gefa og frá mörgu að segja; hún var trygg vinkona og sérlega næm og hafði þann einstaka eiginleika að geta með nærveru sinni einni saman umvafið mann hlýju og gleði. Hún tókst á við erfið veikindi af æðruleysi og þeirri reisn sem einkenndi Önnu alla tíð. Við sem fylgdumst með henni heyja baráttu við krabbamein dáðumst að þeim styrk og þeim baráttuanda sem hún hafði yfir að búa. Veikindin stöðvuðu hana ekki í því að vera sú sem hélt hópnum okkar saman, skipulagði ferðir og vinafundi. Hún hafði einsett sér að njóta hvers dags og naut sín hvergi betur en í faðmi fjölskyldu sinnar og með sínum nánustu. Það er huggun harmi gegn að Anna kunni sannarlega að lifa lífinu.

Síðasta ferðin sem við vinkonurnar lögðum í saman norður á Hof í Skagafirði mun lifa í minningunni. Anna skrásetti þá ferð, með sínu næma auga, í gegnum ljósmyndir sem okkur þykir sérstaklega vænt um, nú eftir að hún er fallin frá. Á Hofi áttum við dásamlegar samverustundir, hlógum og rifjuðum upp bernskubrek. Það var ekki ætlunin að sú ferð yrði sú síðasta sem við færum í með Önnu, en því dýrmætari er hún.

Anna var margt. Hún var listfengin og afburðagreind. Hún hafði einlægan áhuga á öðru fólki, sem skilaði sér í öllu því sem hún fékkst við, í leik eða í starfi, í samskiptum við fólk, í listsköpun eða því sem átti hug hennar í seinni tíð, fyrirtækið hennar Lífssaga. Þar skrásetti hún minningar annarra í máli og myndum og gaf út í bók. Með Lífssögu tókst henni að sameina einlægan áhuga sinn á fólki, ljósmyndum og sögum. Hún var nefnilega haldin óseðjandi söguþrá því sjálf var hún einstakur sögumaður, húmoristi og hláturmild. Hún var hrókur alls fagnaðar hvert sem hún kom. Að vera með Önnu var einfaldlega svo skemmtilegt.

Það eru forréttindi að hafa átt Önnu sem vinkonu og sárt að hugsa til þess að hún sé farin. Hugurinn leitar á þessum erfiðu tímum til fjölskyldu Önnu, sem hefur misst eiginkonu, móður, ömmu, dóttur, systur og einstaka manneskju. Þeirra missir er sárastur. Skarðið sem fráfall vinkonu okkar skilur eftir sig verður ekki fyllt.

Lífssaga Önnu er sannarlega merkileg og okkur ómetanleg. Við vinkonurnar munum ylja okkur við minningarnar um ókomna tíð.

Já, blessuð vertu, vina mín,

og vertu sæl um skeið.

Svo vitja ég þín um þungan veg,

um þúsund mílna leið.

-Robert Burns í þýðingu Þorsteins Gylfasonar

Laufey, Unnur, Sigrún, Dúdda og Sigga