Það er mér hjartans mál á geðheilbrigðisdegi að upplýsa að einstakt hús í Kópavogi verður miðstöð fræðslu og þjálfunar á sviði geðræktar,“ segir dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir, sérfræðingur lýðheilsumála í bænum. Í byrjun verður áhersla lögð á 1. stigs sálfræðilegan stuðning við börn og ungmenni sem glíma við andleg vandamál, að hennar sögn.

„Allt verður gert í samstarfi við mennta- og velferðarkerfið, en það er gott fyrir krakka að fara út úr skólaaðstæðum til að ræða um líðan sína. Svo verður húsið líka staður fyrir eldri íbúa bæjarins sem glíma við einsemd og kvíða.“

Anna Elísabet Ólafsdóttir, sérfræðingur lýðheilsumála í Kópavogi.

Húsið stendur við strönd Kópavogs. Það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og Hringskonur létu byggja það sem hressingarhæli fyrir útskrifaða berklasjúklinga árið 1926.

„Segja má að þetta hús hafi verið nýtt fyrir heilbrigðisvandamál hvers tíma. Nú er kvíði ein helsta ástæða skertra lífsgæða og í nýlegri skýrslu frá Unicef kemur fram að íslensk 15 ára ungmenni vermi neðsta sætið í Evrópu hvað varðar félagsfærni,“ segir Anna Elísabet. Hún tekur fram að umhverfi hússins bjóði upp á hugræktargöngur og núvitundaræfingar utan dyra.