Heiðrún Jónsdóttir, lögmaður og athafnakona, fæddist 9. júlí 1969 á Húsavík. „Hidda“ eins og hún var kölluð af fjölskyldunni framan af eða „Heidda“ eins og vinirnir kalla hana, fór 16 ára í Samvinnuskólann að Bifröst þaðan sem hún lauk verslunarprófi. Að loknu stúdentsprófi frá Verslunarskóla íslands 1989 hélt hún til vetrardvalar í Þýskalandi. Hún lauk síðan kandídatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, prófi í starfsmannastjórnun frá Háskólanum á Akureyri 1999, löggildingu í verðbréfamiðlun 2006 og síðan AMP stjórnunarnámi frá IESE Business School 2017.

Í dag starfar Heiðrún sem lögmaður en hefur einkum starfa af setu í stjórnum nokkurra stærstu fyrirtækja landsins.

Ræturnar

„Ræturnar eru fyrir norðan,“ segir Heiðrún og ljómar öll. „Foreldrar mínir, hjónin Jón Helgi Gestsson og Halldóra María Harðardóttir, búa enn á Húsavík. Þar hafa þau búið í sama húsinu í 50 ár, ef frátalin eru árin 1978-1979 þegar við bjuggum í Svíþjóð.

Heiðrún giftist Jóhannesi Sigurðssyni árið 2014. Hann er dómari við Landsrétt. Hún á tvö börn, þau Jón Hallmar Stefánsson fæddan 1998 og Heiðveigu Björgu Jóhannesdóttur fædda 2005. Stjúpsynir eru þrír, þeir Sigurður Logi lögmaður, Andrés Már viðskiptafræðingur og Tómas Hrafn tölvunarfræðingur.

Aðspurð um áhugamál segir Heiðrún þau séu aðallega útivist, ferðalög og fjölskyldan. „Að vera úti í náttúrunni á Íslandi er best af öllu, sérstaklega á sumrin. Trúlega er stutt í sveitastelpuna, en ég var mikið í sveit hjá ömmu Heiðveigu og afa Gesti í Múla í Aðaldal.“ Annars hefur Skorradalur átt talsverðan tíma hennar frá árinu 2007. „Þar á fjölskyldan fallegt sumarhús. Þar er gott að vera,“ segir hún. „Þegar við ferðumst á Íslandi þá viljum við allra helst vera á fámennum stöðum frekar en yfirfullum tjaldstæðum. Ef ég á að uppljóstra um uppáhaldsstaðinn þá myndi ég segja Flateyjardalur í Þingeyjarsýslu. Þaðan var Emilía langamma mín en hún var fædd árið 1903. Það er eitthvað við dalinn, söguna og að horfa yfir í Flatey á Skjálfanda. Í fyrra fórum við hjónin á Hornstrandir og gengum um í fjóra daga. Þá er alltaf gott að koma heim á Húsavíkina og nauðsynlegt að komast á sjóstöng með Geira frænda,“ segir Heiðrún.

Heilræðið

Uppáhaldsborgir Heiðrúnar eru nokkrar. „Eftir vetrardvöl í Þýskalandi stendur München upp úr ásamt Berlín, en þar var ég stödd þegar múrinn féll í nóvember 1989. Þá er Barcelona frábær borg og ég naut þess að vera þar í náminu við IESE Business School. Áhugaverðasta landið sem við höfum farið til er þó Víetnam.“

En eru ekki miklar annir vegna setu í öllum þessum stjórnum? „Jú, það er rétt en þetta er fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir hún. „Það er mér mikilvæg leiðsögn að taka verkefnin alvarlega og gefa engan afslátt af því, en taka mig sjálfa ekki alvarlega um of. Mikilvægasta heilræðið sem ég hef fengið er trúlega frá Heiðveigu ömmu sem var efnislega eitthvað á þessa leið: „Aldrei verða geðlurða, mér leiðist fólk sem hefur engar skoðanir.“ Ég læt svo lesendum eftir að lesa í hvaða merkingu orðið geðlurða hefur haft í Þingeyjarsýslu á síðustu öld,“ segir Heiðrún brosandi.

Afmælið

Hvað ætlar athafnakonan að gera af þessu tilefni? „Á föstudagskvöldið síðasta fagnaði ég með fjölskyldunni, vinum og góðu samferðafólki með veislu í Kópavogi.

Á sjálfan afmælisdaginn ætla ég hins vegar að láta lítið fyrir mér fara og hafa það rólegt.“

En hvernig leggst þessi aldur í þig? „Ég er þakklát fyrir hvert ár, það er ekkert sjálfgefið. Ég er að reyna að læra að njóta fremur en að þjóta,“ segir afmælisbarnið og athafnakonan Heidda frá Húsavík.

Athafnakonan Heiðrún Jónsdóttir

Heiðrún hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars verið formaður stjórna Norðlenska, Íslenskra verðbréfa, Gildis lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í stjórnum Ístaks, Reiknistofu bankanna, Arion verðbréfavörslu, Þekkingar, Landssambands lífeyrissjóða og Símans. Þá sat hún í stjórn Lögmannafélags Íslands og var varaformaður þess síðasta ár.

Heiðrún hefur verið stjórnarmaður í Icelandair frá mars 2018, í bankastjórn Íslandsbanka frá apríl 2016, í stjórn Olíuverzlunar Íslands hf. frá nóvember 2013 og í stjórn Regins frá mars 2019.