Amma mín, Hólmfríður Sigurðardóttir kennari, átti heima á Raufarhöfn og henni þykir afar vænt um þann stað. Upphaflegi punkturinn var að fara með henni þangað og fá hana til að lýsa því hvað væri svona æðislegt. En hún var lasin og ég keyrði ein með börnin mín norður, þessa 600 kílómetra. Þar brutumst við inn í litla húsið hennar, Sandgerði. Á því byrjar bókin, það var dálítið góð leið inn í frásögnina,“ segir Hólmfríður Helga Sigurðardóttir blaðamaður (Fríða), þegar hún er beðin að lýsa tildrögum þess að hún skrifaði bókina Amma – draumar í lit – sem er nýkomin út á vegum Stundarinnar. Þar hjálpast þær nöfnur að við að bregða ljósi á lífshlaup þeirrar eldri og ljóð hennar tvinnast við frásögnina. Það skal tekið fram, áður en lengra er haldið, að báðar fara saman til Raufarhafnar undir lok bókar.

Skyldu þær nöfnur alltaf hafa verið nánar?

„Já, amma hefur alltaf verið vinkona mín, frá því ég var lítil stelpa Hún á mörg barnabörn, sýndi öllum áhuga og kom fram við okkur af virðingu, söng mikið með okkur og kenndi okkur tákn,“ svarar Fríða. „Amma fór í kennaraskólann þegar börnin hennar voru komin á legg og var alltaf meðvituð um að koma eins fram við alla. Ömmum þykir vænt um barnabörnin sín, nánast eins og þau séu þeirra eigin börn, en samt er sambandið afslappaðra og getur verið svo ótrúlega fallegt og mikilvægt. Mamma mín hefur mikið að gera, samt á hún gott samband við barnabörnin sín.“

Við Fríða sötrum eðalkaffi úr fínlegum bollum og borðum tekex með Búraosti – tengjum við bókina. Hún segir Hólmfríði ömmu eina af sínum sterku kvenfyrirmyndum. „Ég held ég sé heppin því ég á dálítið margar, en fas hennar og áhugi á lífinu, umhverfinu og fólkinu í kringum sig er algerlega til eftirbreytni. Eins og fleiri konur af hennar kynslóð kann hún svo mörg aðdáunarverð handbrögð sem eru að tapast. Að því leyti er hún alger fyrirmynd en ég geri mér engar væntingar um að komast þangað.“

Amman, Hólmfríður, verður 88 ára á þessu ári. Var hún strax til í að deila minningum sínum með þjóðinni?

„Henni fannst hún ekkert efni í bók en vill allt fyrir mig gera svo hún lét þetta eftir mér. Útgáfa var heldur ekki upphafsmarkmiðið hjá mér heldur það að taka upp viðtöl við hana til að eiga. Við byrjuðum að hittast markvisst um vetur, oft snemma á morgnana, fengum okkur kaffi og töluðum saman. Það þurfti ekkert mörg skipti til að ég áttaði mig á því að það var margt gríðarlega áhugavert í lífi ömmu sem ég ekki vissi. Ef fólk hefur tíma og tök á þá ætti það að taka viðtöl við ömmur sínar og afa til að fræðast og geta miðlað áfram.

Mig langaði að segja sögu hinnar dæmigerðu íslensku konu í gegnum ömmu. Það var gaman að átta sig á því hversu sterkum áhrifum hún varð fyrir af rauðsokkahreyfingunni, ekki sem beinn þátttakandi en samt tilbúin að taka skilaboðin til sín og leyfa þeim að breyta lífinu. Eins og að drífa sig aftur í nám og fara tvisvar í viku í leikfimi og skilja manninn sinn eftir með krakkahópinn – sjö stykki.

Tímarnir sem amma upplifði framan af ævinni eru svo allt öðru vísi en í dag. Mér fannst ótrúlegt að heyra hana lýsa því þegar hún missti barn í fæðingu, tvíburastúlku sem var bara tekin og amma vissi það ekki fyrr en nokkrum klukkutímum seinna að hún hefði látist. Sá hana aldrei. Kom heim með hina litlu stúlkuna og varð bara að halda áfram og hugsa um barnahópinn sinn. Enginn tilbúinn að ræða þetta. Svona hlutir hafa lagast mikið.

Afi var bara 62 ára þegar hann dó. Amma þá 59. Það var mikið áfall. Ég var tíu ára og fannst þau gamalt fólk. Núna veit ég að það var ekki rétt. Þegar amma horfir til baka núna finn ég að árin eftir miðjan aldur eru henni líka mikilvæg í endurminningunum. Það finnst mér ánægjulegt þó auðvitað sé sorglegt að hún skyldi ekki hafa manninn sinn með sér. En svona er lífið.“