Við höfum verið að undirbúa þessa tónleika frá því í febrúar. Nú er komið að þeim,“ segir Hrólfur Jónsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri Reykjavíkur, sem stofnaði hljómsveitina 13 tungl. Hún heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu í kvöld sem hefjast klukkan 20.30. Þar verða flutt lög og textar eftir Hrólf, Ragnar Jón son hans og Kristján Kristjánsson, betur þekktan sem KK, sem er einn af gestum tónleikanna.

Hrólfur er sjálfur söngvari með bandinu og kveðst hafa fengið til liðs við sig úrvals fólk, hámenntað í tónlist. „Þetta fólk er búið að búa til ótrúlegan hljóðheim í kringum lögin okkar,“ segir hann hrifinn. Við vorum með Jakob Frímann á æfingu í fyrradag og hann keyrði mig heim. Hann sagði: „Þetta er nú miklu betra en ég hafði gert mér grein fyrir, spurning hvort ég geti ekki komið meira inn í þetta hjá ykkur úr því ég er þarna hvort sem er,“ og það er búið að bæta einu píanósólói á hann. – En hann fær ekkert að segja fyrr en í restina, ég er búinn að stilla því þannig upp!“ segir hann prakkaralega og bætir við: „Við erum sko góðir vinir og eins ég og KK.“

Hrólfur var 24 ár í Slökkviliði Reykjavíkur, þar af 13 ár sem stjórnandi. Hann kveðst hafa fengist við laga- og textasmíðar í frístundum seinni árin. „Ég sem allt á gítar. Grínast stundum með það að ég sé svo ómúsíkalskur að ég geti ekki lært hljóma eftir aðra, heldur verði alltaf að hafa þá á blaði fyrir framan mig. Þess vegna hafi ég farið út í það að búa til eigin lög. Þá bara spila ég lagið eins og það var samið og þeir hljómar sem þar koma fyrir hafa alveg gengið upp, því ég hef spilað með atvinnutónlistarmönnum.“

Þó að þetta séu fyrstu tónleikar 13 tungla þá hefur Hrólfur áður komið fram sem tónlistarmaður. „Í gegnum tíðina hef ég alltaf verið að leika mér. Við vorum með hljómsveit í Slökkviliðinu sem hét Eldbandið, það kom fram annað slagið. Svo gaf ég út plötu 2010, þá setti ég saman hljómsveit og við héldum tónleika í Tjarnarbíói sem tókust ágætlega. 2014 gerði ég disk með syni mínum og þá varð til band sem var með útgáfutónleika í Sögusafninu.“

Hann segir þörfina fyrir að semja hafa farið vaxandi eftir aldamótin „Ég flutti til Danmerkur og bjó þar í eitt ár, þá urðu til mörg lög því þar skapaðist svigrúm til að semja. Ég hjólaði mikið þar og hef komist að því að það hefur mjög góð áhrif á heilabúið. Ég er að lesa núna bók sem heitir Einstein and the Art of Mindful Cycling. Einstein hælir hjólreiðum mikið og segir að þar fái hann sínar bestu hugmyndir. Þegar maður hjólar ryðst öll vitleysan út úr heilanum og heilmikið rými verður til fyrir skapandi hugsanir.“gun@frettabladid.is

Þau stíga á svið

Í hljómsveitinni 13 tungl eru auk Hrólfs: Ástvaldur Traustason, Daníel Friðrik Böðvarsson, Ingólfur Magnússon, Ragnar Jón Hrólfsson, Rósa Guðrún Sveinsdóttir, Unnur Birna Björnsdóttir, Vigga Ásgeirsdóttir og Þorvaldur Ingveldarson.

Auk þeirra koma fram: Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Jakob Frímann Magnússon og KK, ásamt Karlakórnum Þröstum.