Árlega efnir lista- og menningarráð Kópavogsbæjar til ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Í þetta sinn var það skáldið Björk Þorgrímsdóttir sem hlaut verðlaunin og var að vonum glöð. „Ég sendi fyrst inn ljóð í keppnina í fyrra. Annars er ég oft svo utan við mig þegar kemur að svona hlutum, gleymi að sækja um eða hlutir fara fram hjá mér þannig að þetta er ótrúlega ánægjulegt.“

Það er nóg að gera hjá Björk, hún starfar í Gerðarsafni í Kópavogi og nemur menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Áður hefur hún lært heimspeki, bókmenntafræði og ritlist við sama skóla. Hún hefur gefið út tvær bækur, Bananasól árið 2013 og Neindarkennd árið 2014, það var hennar fyrsta ljóðabók. „Ég gaf út bækurnar með nokkurra mánaða millibili og nú er ég með ljóðahandrit nánast tilbúið. Held þó að það sé sama hversu margar bækur liggi eftir hvern og einn, við erum alltaf á byrjunarreit. Það er alltaf efi um eigin rödd en efinn er að sama skapi nauðsynlegur, ákveðið sköpunarafl.“

Björk viðurkennir þó að vera sískrifandi. „Ég er alltaf að hripa eitthvað niður í stílabók, hugsanir eða setningar sem ég heyri og les. Verandi skáld er maður stöðugt vakandi og að safna í sarpinn, þó ómeðvitað sé að einhverju leyti.“ Hún segist njóta þess að lesa ljóð eftir aðra. „Það er fullt af góðum ljóðabókum sem hafa komið út um þessar mundir eftir íslensk skáld. Mér þykir líka vænt um þegar fólk þýðir ljóð, það er dýrmætt. Annars er mikil gróska í ljóðaheiminum og auðvitað fylgist maður með.“

Hún ólst upp innan um bækur, að eigin sögn. „Afi minn, pabbi mömmu, var bókbindari og faðir hans átti Bókfell á Hverfisgötunni. Það var alltaf lögð mikil áhersla á bóklestur og síðan ég var lítil hefur mér alltaf þótt gaman að lesa upphátt fyrir fólk. Góð vinkona mín átti heima í sömu blokk og ég en mamma hennar vann á leikskóla. Við fórum oft með henni þangað þegar hún var að skúra og þá fórum við beint inn í bókaherbergið þar sem ég las upphátt fyrir hana. Þetta var það skemmtilegasta sem ég gerði. Eins elti ég mömmu um húsið lesandi þegar hún var að sýsla eitthvað. Ég naut þess að fara með texta.“

Þegar Björk var að byrja að yrkja segir hún mikið hafa verið um ljóðaupplestra. „Nýhil, félag ungskálda, var sterkt, oft var lesið upp í Stúdentakjallaranum og þar myndaðist góð stemning. Í seinni tíð hefur landslagið aðeins breyst. Það eru fleiri útgáfufélög, bæði í grasrótinni og ekki. Svo með tilkomu ritlistarkennslu hafa myndast skáldahópar. Fjölbreytnin er meiri og fleiri raddir komið fram sem lengir vonandi líftíma ljóðsins. Annars er ótrúlega hollt að fá þessa viðurkenningu og hún er mikil hvatning fyrir mig til að halda áfram.