„Strandvegahringurinn sem ég gekk á tveimur sumrum til styrktar Krabbameinsfélaginu var 3.446 kílómetrar. Þjóðvegirnir sem lágu næst ströndinni voru um þúsund kílómetrum lengri en tveir hringir á þjóðvegi 1. Ég veit ekki til að nokkur annar hafi gengið þá leið,“ segir Jón Eggert Guðmundsson tölvunar-og líffræðingur.

Hann og bílstjóri hans, Sigfús Austfjörð, sem lést árið 2012, skrifuðu bók saman á leiðinni og tóku myndir. Nú er efnið aðgengilegt því Ferðabók Jóns Eggerts og Sigfúsar er komin út í kilju.

„Ég er að láta gamlan draum rætast,“ segir göngugarpurinn, sem gefur bókina út sjálfur og lætur 500 krónur af hverju seldu eintaki renna til Krabbameinsfélagsins.

Fór með fern skópör

„Eftir að hafa notað sumarfríið 2005 í að ganga úr Hafnarfirði um suðurströndina austur á land ákvað ég að loka hringnum árið eftir. Notaði veturinn til að panta gistingar, sækja um frí í vinnu og fara æfingagöngur um helgar úr Hafnarfirði í Grafarvog að heimsækja ömmu á Eir – og til baka,“ lýsir Jón Eggert.

„Tók svo afganginn af landinu sumarið á eftir. En það er búið að bæta við hringinn síðan, á þessum tíma voru Héðinsfjarðargöngin til dæmis ekki komin svo ég fór yfir Lágheiðina niður í Fljótin. Allt var mér nýtt á leiðinni og ég man alla staðina. Bundna slitlagið náði yfir um helming veganna og ég held ég hafi gengið upp fern pör af skóm!“

Vinnur að heimsmeti

Strandvegagangan varð Jóni Eggerti hvati til frekari afreka. Eftir labbið um Ísland hjólaði hann þvert yfir Bandaríkin og líka upp austurströnd þeirra og Kanada, frá Flórída til Nova Scotia.

„Ég hjólaði líka strandvegahringinn 2016 og tók þátt í sólókeppni WOWair á upphafsári hennar. Svo hef ég gert tilraun til heimsmets í lengstu þríþraut í heimi, fyrir Guinness. Þá byrjaði ég á að hlaupa 1.700 kílómetra, hjólaði svo 6.000 kílómetra og synti tæpa 300 kílómetra, allt á sjö mánuðum. Var með vídeóvél á mér allan tímann og gögnin sem ég safnaði voru heimsmet í sjálfu sér. En eftir að hafa fengið þessa löngu kvikmynd breytti Guinness reglunum og bað mig að klippa myndina niður í ákveðna búta. Það er verkefni mitt núna. Þegar þeir bútar hafa verið skoðaðir fæ ég vonandi heimsmetið staðfest.“