Það má ekki seinna vera að mannorði þessa listamanns sé lyft. Hann hefur verið falinn fram að þessu,“ segir Atli Rúnar Halldórsson blaðamaður, sem hafði umsjón með útgáfu bókarinnar Beckmann. Þar er vandað til verka – í anda söguhetjunnar Vilhelms Ernst Beckmann, sem margir forkunnarfagrir gripir liggja eftir. „Það lék allt í höndum hans. Hann gat málað og teiknað og skorið út í hin ólíkustu efni. Þrettán kirkjur á Íslandi skarta verkum eftir hann, skírnarfontum, altaristöflum og fleiri kirkjugripum,“ lýsir Atli Rúnar, sem furðar sig á að Beckmanns hafi aldrei verið getið í listaverkabókum hingað til, né haldin heildstæð sýning á verkum hans.

Bókin sem nú er komin út geymir myndir og greinar um líf Beckmanns og list; meðal annars dramatíska sögu um uppvaxtarár hans í Þýskalandi í skugga nasisma og pólitískan flótta þaðan, sem endaði á Íslandi árið 1935, er hann var 26 ára. Hann settist hér að og starfaði við útskurð og hönnun, meðal annars hjá Ríkarði Jónssyni útskurðarmeistara og Guðmundi Guðmundssyni, trésmiði í Víði. Beckmann giftist Valdísi Einarsdóttur og þau eignuðust tvö börn. Hann dó á Vífilsstöðum 1965.

Sjálfsmynd Wilhelms með vatnslitum frá yngri árum er á blaðsíðu 102.

Þögnin sem hefur umlukið starf Beckmanns er öðrum þræði vegna hlédrægni hans, að sögn Atla Rúnars. „Listaelítan og hann áttu ekki samleið. Hann var flókinn persónuleiki, vildi vera dálítið einn og sjálfur, en lét verkin tala. Ég heyrði fyrst á hann minnst fyrir ári síðan, þegar ég var beðinn að halda utan um útgáfuna. Ekkert var til sparað að hafa hana sem veglegasta. Börn Beckmanns, Einar og Hrefna, vildu halda minningu föður síns á lofti og stofnuðu félag í hans nafni árið 2013, það kostar útgáfuna. Hrefna er látin nú og líka maðurinn hennar en Einar býr í Ástralíu. Hann skrifaði inngang í bókina, er grafíker að mennt og hefur fylgst með útgáfuferlinu gegnum tölvupóst. Meðal annarra sem eiga greinar í bókinni er Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur. Í ritnefnd voru Hrafn Andrés Harðarson sem skrifaði æviágripið, Ásgeir Jóhannesson og Magnús Pétursson, en ég fékk frjálsar hendur um hvernig verkefnið yrði leyst.“

Mikið liggur eftir Beckmann af listmunum, að sögn Atla Rúnars. „Tengdasonurinn var byrjaður á skráningu verka en entist ekki aldur til að ljúka henni. Munir eftir Beckmann eru ábyggilega til á heimilum án þessa að eigendur þeirra átti sig á því. Hann setti samt fangamark á þá, á sumum er fullt nafn en WB á flestum. Ég hef sjálfur komið í hús og séð þar lampa sem hann skar út og húsráðandi vissi ekki að væri eitthvað merkilegur.“

Atli með eftirprentun af kattarteikningu frá árinu 1938 eftir söguhetjuna, Wilhelm Ernst Beckmann.

Eitt atriði úr útgáfusögunni nefnir Atli Rúnar – með smá formála. „Í mörgum löndum er að finna menn sem eru hallir undir kristna trú og kirkju og eru róttækir vinstrisinnar í skoðunum, Beckmann var sú týpa framan af. Bókin var farin frá mér þegar ég, af tilviljun, var að horfa á þátt í norska sjónvarpinu um Einar Gerhardsen forsætisráðherra og hugsaði: Það var eitthvað kunnuglegt í þessum þætti – svo ég horfði á hann aftur. Skýringin er á blaðsíðu 71 í bókinni. Norski verkamannaflokkurinn vann í fyrstu kosningum eftir að landið var hernumið og á útbreiddasta áróðursplakati hans var mynd eftir Beckmann. Ég stoppaði bókina í ferlinu og kom frímerki um þetta mál inn í hana.“

Atli Rúnar segir allnokkrar pælingar hafa þurft til að koma bókinni saman en vonast til að hún sé frekar upphaf á einhverju en endir. „Mér finnst maðurinn stórmerkilegur. Þeir gripir sem ég hef séð eftir hann og handfjatlað eru með ólíkindum glæsilegir. Eins og næla úr fílabeini og spónn með götum í skaftinu og nafni dótturinnar, Hrefnu. Maður skilur ekki hvernig þetta er hægt. Beckmann hlýtur líka að teljast einn af frumkvöðlum hér á landi í grafískri hönnun, því merki Hótel Borgar er eftir hann. Það er frá 1945 og er enn notað. Það er þakkarvert. Ég fór með bók til hótelstjórans.“

Skírnarfontur í Vopnafjarðarkirkju frá 1962. Mynd/Dagný Steindórsdóttir