Við Eyjamenn viljum að unglingarnir okkar hafi eitthvað að gera í sumar. Rútínan skiptir svo miklu máli. Við reynum því að tryggja að krakkar sem eru búsettir hér fái vinnu,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Hún segir umsóknir um sumarstörf hjá bænum með mesta móti í ár. „Eldri krakkar sækja um vinnu hjá okkur í meiri mæli en áður. Fimmtán og sextán ára fengu gjarnan störf í frystihúsunum en það komast færri í þau vegna aukinnar tæknivæðingar. Við fáum þann aldurshóp inn í Vinnuskólann, hann er fyrir 13 til 16 ára, og svo höfum við umhverfis- og sumarstörf fyrir 17 ára og eldri. Það er nóg af verkefnum í umhverfinu. Stundum hefur okkur vantað hendur til að sinna þeim, nú bara bætum við í,“ segir Íris.

Stígagerð er meðal þess sem umverfisdeildin mun sinna. „Við þurfum að bæta stígana á fjöllunum hjá okkur og á öðrum vinsælum gönguleiðum. Svo þarf að fegra umhverfið kringum söfn og aðrar stofnanir og sinna grænum svæðum, allt undir handleiðslu verkstjóra. Við reynum að hafa framboðið fjölbreytt og fólk getur valið að vera í blómagengi, sláttugengi, sinna hinum ýmsu verkum eða gerast flokksstjórar í Vinnuskólanum.“

Íris nefnir líka afleysingastörf á stofnunum bæjarins. „Við setjum öll sumarstörf hjá okkur í eina auglýsingu hvort sem þau eru á dvalarheimili fyrir aldraða, bókasafninu, leikskólanum, umhverfinu eða söfnunum. Fólk sækir um en þeim sem ekki komast í sitt val er alltaf boðið að fá umhverfisstarf og ég get ekki betur heyrt en fólk sé almennt ánægt með þetta fyrirkomulag. Við sóttum um sjö störf fyrir háskólanema en fengum úthlutað fjórum og erum að auglýsa þau líka.“