María Emilía Garðarsdóttir fiðluleikari var ein af örfáum sem fengu aðild að nýstofnaðri akademíu Fílharmóníusveitar Kaupmannahafnar.

Lumbye-akademían er glæný stofnun á vegum Fílharmóníusveitar Kaupmannahafnar þar sem lagt er upp með að styðja við bakið á efnilegu tónlistarfólki víðs vegar um Evrópu og undirbúa það fyrir þær síbreytilegu kröfur sem fylgja því að vera í sinfóníuhljómsveit. María Emilía Garðarsdóttir fiðluleikari var ein þeirra sem sóttu um þegar akademían auglýsti eftir umsóknum og tryggði sér eitt örfárra sæta sem í boði voru.

„Ég veit ekki hversu margir sóttu um, en það var þrjátíu og einn fiðluleikari sem fékk að koma í prufu fyrir þau fjögur pláss sem í boði voru,“ segir María Emilía, sem lýsir prufuspili sem sérstakri reynslu. „Það spila allir það sama og maður þarf að spila allt fullkomlega án þess að virðast vera varkár, því maður verður að skapa tónlistarlega upplifun á örfáum sekúndum fyrir dómnefndina til að standa upp úr fjöldanum.“

Draumi líkast

María Emilía segir það algjöran draum fyrir ungan tónlistarmann að fá inni í akademíunni.

„Að komast þangað inn þýðir að ég hef stöðugt starf í hljómsveit næstu tvö árin þar sem ég mun hafa mikið af forsendum til þess að verða betri í mínu fagi,“ segir hún og bendir á að eitt af markmiðum akademíunnar sé að meðlimir fái sæti í fremstu sinfóníuhljómsveitum heimsins þegar tveggja ára samningnum lýkur. „Mér finnst það ennþá svo óraunverulegt að hafa unnið starf í hljómsveitinni næstu tvö árin, því þetta er alveg týpískt eitthvað sem mig myndi dreyma um í svefni og vakna svo ótrúlega vonsvikin og fúl.“

Blíðviðri og skosk hálandanaut

Aðspurð segist María Emilía í rauninni alltaf hafa spilað á fiðlu. Hún hóf nám í Suzuki-deild Tónskóla Sigursveins þriggja ára og var þar trygg og trú þar til hún útskrifaðist þaðan með Auði Hafsteinsdóttur sem aðalkennara.

„Þá var förinni heitið til Kaupmannahafnar í Konunglega danska tónlistarkonservatoríið þar sem ég kláraði bakka­lárgráðu 2021, en ég er þar enn í námi og á eitt ár eftir af meistaranáminu mínu, þar sem ég hef Frederik Øland úr Danska strengjakvartettinum, og Elisabeth Zeuthen Schneider sem leiðbeinendur.“

Og lífið í Danmörku er ansi gott.

„Veðrið er gott og maður getur hjólað allt sem maður fer. Ég hef ekki mikið rúm fyrir önnur áhugamál utan tónlistarinnar, en þar sem það tekur mikið á að vera að fara í mikið af keppnum og prufuspilum reyni ég að vera mikið í náttúrunni því það hjálpar mér mikið með streituna sem fylgir þessu. Það er til dæmis stór villtur garður beint við hliðina á heimilinu mínu í Kaupmannahöfn þar sem skosk hálandanaut ganga laus, og það er einmitt uppáhaldsstaðurinn minn til að vera og svara tölvupóstum og svoleiðis.“