Við stoppuðum alveg frá 13. mars til 4. maí og það var gaman að byrja aftur, segir Karl Birgir Örvarsson sem rekur skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði, ásamt konu sinni Halldóru Árnadóttur. „Við settum allt starfsfólkið á 25% leiðina og notuðum tímann til að snurfusa kringum okkur. Sem betur fór vildu skólarnir sem áttu pantað í maí alls ekki að nemendur þeirra misstu af dvöl hér og við verðum með búðirnar til 5. júní. Samkvæmt reglum eru bara kennarar með, engir foreldrar eða aðrir gestir.“

Karl segir alla stálslegna í blíðunni í Hrútafirði. „Og heldurðu að það sé ekki bara logn!“ segir hann hlæjandi. „Félagar mínir gera nú stundum grín að mér þegar ég sendi héðan myndir og fjörðurinn er spegilsléttur. „Hva, ertu orðinn svona góður í Photoshop?“ segja þeir!“

Karl og Halldóra hafa verið með ferða- og veisluþjónustu yfir sumarið en Karl segir marga hópa hafa hætt við þetta sumarið. „Ég er að lesa það í gegnum samtal mitt við fólk að það er orðið hrætt við einhverja seinni bylgju af veirunni. Kannski er maður kominn svo langt út í sveit að finnast þetta óþarfa varúð, ég veit það ekki. Veit bara að í skólabúðunum er fyrsta daginn bent á þrifnað, handþvott og spritt og við sjáum að allir krakkar eru orðnir meðvitaðir um slíkt. Svo orðum við Covid ekki meira. Hér er algert frí frá því. Ekkert horft á sjónvarp og krakkarnir fá ekki að vera með síma. Þau eru bara úti að leika og stunda íþróttir og fræðast gegnum upplifun, byggðasafnið og fjöruna. Þetta eru tólf og þrettán ára krakkar, mjög skemmtilegur aldur og móttækilegur fyrir útiveru og ævintýri í sveitinni.“