Náttúrufræðingurinn, félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands, kom nýlega út og var það 3.-4. hefti 91. árgangs ritsins. Útgáfan markar tímamót þar sem þetta er síðasta útgáfa ritsins undir ritstjórn Álfheiðar Ingadóttur líffræðings, sem hefur sinnt starfinu frá árinu 2014 og reyndar einnig frá 1996-2006.

„Þetta er tímabært. Ég er búin að vera þarna býsna lengi og það eru ýmsar breytingar á döfinni,“ segir Álfheiður sem lætur af störfum um næstu mánaðamót þegar Margrét Rós Jochumsdóttir tekur við keflinu. „Ég hef náð þessum eftirsótta sjötugsaldri og nú stendur til að tímaritið fari inn í hinn stafræna heim með nýju vefsetri og verði bæði gefið út á prenti og á vefnum. Þetta eru tímamót þar sem eðlilegt er að skipta um ritstjóra og fyrir mig að breyta til.“

Einstakur vettvangur

Saga Náttúrufræðingsins teygir sig langt aftur en útgáfa hans hófst árið 1931. Álfheiður segir hann frá upphafi hafa verið hugsaðan sem alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði þar sem markmiðið hefur verið að kynna rannsóknir, ekki bara á íslenskri náttúru heldur náttúrufræði almennt, fyrir almenningi.

„Þetta er eina tímaritið sem birtir niðurstöður vísindarannsókna á öllum sviðum náttúrufræða á íslensku. Það er enginn annar vettvangur fyrir slíkt,“ segir hún. „Þess vegna höfum við talið mjög mikilvægt að halda tímaritinu úti – þannig festast ný hugtök og hugmyndir í sessi og verða að sameiginlegri þekkingu og skilnings landsmanna, til dæmis í náttúruvernd. Höfundar hafa í gegnum tíðina brugðist mjög vel við. Það er aldrei skortur á spennandi efni á þessu fjölbreytta sviði.“

Efnistökin eru sannarlega fjölbreytt, en í nýjasta heftinu er meðal annars sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Álfheiður segist á tíma sínum sem ritstjóri hafa fundið fyrir auknum áhuga höfunda og vísindamanna á að skila efni sínu til almennings á íslensku.

„Það er aldrei hörgull á efni og á undanförnum árum hefur málaflokkur umhverfisverndar og ferðamennsku orðið fyrirferðarmeiri en áður,“ út­skýrir hún. „Þar hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum ferðamennsku á landið. Efnistökin eru í raun víðari núna en áður, finnst mér.“

Aðspurð hvað taki við segist Álfheiður halda áfram störfum hjá Náttúruminjasafni Íslands í sértækum verkefnum á sínu sviði. „Þótt ég láti af störfum sem ritstjóri þá held ég áfram hjá safninu, fram á sumar allavega.“

Veðurglöggar áttfætlur

Fyrsta tölublað Náttúrufræðingsins kom út árið 1931 og voru Guðmundur G. Bárðarson og Árni Friðriksson fyrstu ritstjórar tímaritsins. Efnistök í fyrsta blaðinu voru fjölbreytt. Þar mátti finna grein um goshverinn Grýlu í Ölfusi sem var á þeim tíma einn af nafnkunnustu goshverum landsins. Þá var skrifað um frumefnið helíum, eldgosin í Heklu 1913 og köngulær á Íslandi. Eins og í dag var lagt upp með að efni blaðsins væri bæði aðgengilegt og skemmtilegt fyrir alþýðufólk, eins og sjá má á texta Árna Friðrikssonar um köngulærnar:

„Þótt köngulærnar sjeu grimmúðugar að skaplyndi, eiga þær hrós og heiður skilið fyrir dugnað og atorku. Vefurinn er meistaraverk og einstakur í sinni röð.“

Þá minnist Árni á hæfileika köngulóarinnar til að spá fyrir um veður. Sagt sé að húsaköngulóin snúi höfðinu út þegar góðviðri er í vændum en afturbolnum þegar illt veður sé í nánd. Köngulærnar leggi meiri rækt við vefi sína undir blíðviðri og stillur en þegar vond veður séu í aðsigi.