Hundrað ár eru frá því að 10 og 25 aura íslenskir peningar voru gefnir út í sleginni mynt.

Í dag eru liðin hundrað ár frá því að fyrsta íslenska slegna myntin fór í dreifingu hér á landi. Það voru 10 og 25 aura peningar en það var ekki fyrr en þremur árum síðar sem fyrsti krónupeningurinn var sleginn.

„Við notuðum auðvitað norræna mynt þar á undan, aðallega danska en líka norska og sænska, alveg frá árinu 1870,“ segir Freyr Jóhannesson myntsafnari um peningaumhverfið á Íslandi fyrir tilkomu klinksins.

Aðalkaflaskilin í íslenskri myntsögu telur Freyr að hafi verið árið 1886 þegar fyrstu alíslensku seðlarnir voru gefnir út.

„Áður notuðum við dansk-íslenska seðla sem voru með danskan texta á framhliðinni en íslenskan á bakhliðinni,“ útskýrir hann. „Þeir voru fyrst gefnir út í kringum árið 1777.“

Sögulegir seðlar

Sjálfur á Freyr veglegt safn af peningum, hvort sem um er að ræða seðla eða slegna mynt. Hann byrjaði sjálfur að safna í kringum árið 1960 þegar hann komst yfir íslenska seðla frá Landsbanka Íslands – Seðlabankanum, fyrirrennara Seðlabankans sem við þekkjum í dag.

„Það eru margir seðlar sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér,“ svarar Freyr spurður um hvort eitthvað standi upp úr í safni hans. „Fyrsti íslenski seðillinn, svo er ég með dansk-íslenskan sem var gefinn út af danska ríkisbankanum 1815. Hann er auðvitað mjög merkilegur seðill því hann var sá fyrsti sem var sérstaklega prentaður fyrir Ísland.“

Lætur rafmyntina eiga sig

Myntsafnarafélag Íslands var stofnað árið 1969 og er vettvangur þeirra sem safna og vilja fræðast um íslenska og erlenda gjaldmiðla, minnispeninga og aðra sambærilega, sögulega hluti.

„Þetta er nokkuð góður hópur, það hafa verið einhver 200-300 manns í félaginu nánast frá upphafi og til dagsins í dag, þótt það hafi verið einhverjar sveiflur á því,“ segir Freyr. „Á síðustu árum hafa þó nokkuð margir gengið í félagið. Það hefur ekki fækkað í félaginu eins og við höfum séð erlendis.“

Þið eruð ekkert byrjaðir að safna rafmyntinni?

„Nei, það er svolítið erfitt,“ segir Freyr og hlær. „En það er til kreditkortasafn, veit ég.“

Fyrsti seðillinn sem var sérstaklega gefinn út fyrir Íslendinga árið 1815 af Danska Ríkisbankanum.
Fyrsta klinkið, 10 og 25 aurar í sleginni mynt.