Þjóðskjalasafn Íslands fagnar 140 ára afmæli á morgun. Í tilefni þess verður haldinn hátíðarfundur á mánudag þar sem stofnuð verða hollvinasamtök tengd safninu auk þess sem ný stefna safnsins verður kynnt.

„Það má segja að starfsemi Þjóðskjalasafns hvíli á tveimur stólpum, annars vegar menningarstarfsemin og hins vegar stjórnsýsluhlutverkið,“ segir Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður. „Við erum að draga fram þessar áherslur og hvað þarf að gera til að standast kröfur samtímans í rafrænum og stafrænum veruleika. Við ætlum okkur að stíga stærri skref en áður í þeim efnum.“

Hrefna segir skjalasafn vera hornstein hvers sjálfstæðs ríkis.

„Þau geyma og tryggja varðveislu til framtíðar á lykilgögnum samfélagsins, á borð við stjórnarskrá, þjóðskrá, manntöl og réttindi einstaklinga,“ útskýrir hún. „Þannig er það virkilega mikilvægt fyrir sjálfstætt ríki að halda utan um slík gögn.“

Þegar forveri Þjóðskjalasafns var stofnaður 1882 var hann eitt af landskjalasöfnum dansk-norska ríkisins. Árið 1915 var safninu breytt í Þjóðskjalasafn og hefur starfað undir því heiti síðan. „Safnið hefur alla tíð lagt áherslu á öll gögn Íslandssögunnar, allt frá Reykholtsmáldaga á 12. öld og til rafrænna vörsluútgáfa af virðisaukaskattskýrslum samtímans,“ segir Hrefna.

Víðförult safn

Í gegnum sögu þess hefur verið talsvert flakk á Þjóðskjalasafni sem hefur verið til húsa á ýmsum stöðum. Landsskjalasafn var upprunalega hýst á lofti Dómkirkjunnar, var síðar flutt í Alþingishúsið og þaðan í Safnahúsið við Hverfisgötu þar sem geymslur voru fullnýttar. Árið 1985 var Hús Mjólkursamsölunnar við Laugaveg 162 keypt og hófst flutningur þangað tveimur árum síðar. Í dag er unnið að þarfagreiningu að nýju húsnæði fyrir Þjóðskjalasafn.

Aðspurð um hvað einkenni starf skjalavarðar segir Hrefna að það sé bæði unnið inn á við og út á við.

„Hér skráum við skjalasöfn, tökum á móti nýjum söfnum, miðlum, rannsökum og gefum út, sinnum einstaklingum og stjórnsýslunni, ráðuneytum og stofnunum,“ segir Hrefna. „Hér eru um fimmhundruð aðilar sem eru skilaskyldir til Þjóðskjalasafns á gögnum sínum svo við tryggjum að þau varðveitist og séu aðgengileg á lestrarsal eða eftir beiðnum.“

Hefur stafræna byltingin á rafrænum skjölum ekkert skemmt sjarmann sem fylgir rykföllnum möppum?

„Það gæti verið að einhverjum finnist það en aðrir eru ánægðir með aukið aðgengi að gögnum þjóðarinnar í margar aldir,“ svarar Hrefna hlæjandi.

Geymslur Þjóðskjalasafns þurfa að standast ítarlegar kröfur.