Nú voru nýjar reglur um fjölda kirkjugesta að taka gildi en ég vona að þær vari ekki lengi. Ég er búin að skíra mörg börn undanfarið, sum frekar stálpuð, gátu næstum sagt nafnið sitt sjálf og eitt mótmælti harðlega þegar ég ætlaði að ausa það vatni!“ segir séra Jónína Ólafsdóttir, nýr sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, glaðlega.

Hún kveðst þakklát fyrir að hafa fengið þetta starf.

„Ég er full tilhlökkunar. Mér finnst vinnan mín guðsgjöf og er viss um að ég á eftir að njóta mín hér.“

Hún viðurkennir að andlegt álag geti fylgt prestsstarfinu á vissum tímum.

„En það merkilega er að það vinnst upp á milli og það sem maður heldur að taki mest á er ekki endilega það erfiðasta. Auðvitað er sorglegt að jarða ungt fólk, ekkert kemst í líkingu við það. Starfið snýst um mannleg samskipti og að gera eins vel og maður getur.“

Valinn maður í hverju rúmi

Hafnarfjarðarkirkja er tignarleg og Jónína segir hljómburð þar góðan.

„Að tóna og flytja ræður hér er áreynslulaust,“ segir hún og lýkur líka lofsorði á samstarfsfólkið.

„Hér er einn af bestu organistum landsins, Guðmundur Sigurðsson, Barbörukórinn með flotta atvinnusöngvara, Bylgja Dís Gunnarsdóttir æskulýðsfulltrúi, flink söngkona og Helga Loftsdóttir sem hefur stjórnað barna- og unglingakórnum í tvo áratugi, að ógleymdum prestinum Jóni Helga Þórarinssyni, sem er sérfræðingur í sálmum og litúrgíu.“

Fékk köllun tólf ára

Það var í gamalli sveitakirkju norður í landi sem Jónína ákvað að verða prestur, þá tólf ára.

„Ég ólst upp í Ljósavatnsskarði og þetta var í kirkjunni að Hálsi í Fnjóskadal, örugglega í jólamessu. Þá hugsaði ég: Þetta er starfið sem mig langar í. Að vísu tók ég BA-próf í íslensku og var jafnvel að hugsa um að taka kennsluréttindi en hætti við, skellti mér í guðfræðina, sem er skemmtilegt og gott nám, og eignaðist tvö börn meðan á því stóð. Ég er þakklát fyrir að hafa látið verða af því að vígjast, hef gaman af tónlist og söng, að halda ræður og vera innan um fólk. Það eru stórar vörður í lífinu, bæði í sorg og gleði, sem starf prestsins snýst um, skírnir, fermingar, giftingar, skilnaðir og andlát, þannig að hann þarf að geta gefið af sér,“ lýsir hún.

Hlakkar til að messa í Krýsuvík

Jónína vígðist til afleysinga í Dalvíkurprestakalli 2018, sem hún sinnti í sex mánuði. Fékk svo prestsstarf á Akranesi en börnin hennar tvö, níu ára dóttir og tólf ára sonur, voru ekki alveg til í að flytja úr vesturbæ Reykjavíkur upp á Skaga.

Hún segir sóknarprestsstarfið meira „fullorðins“ en almennt prestsstarf. Því fylgi ábyrgð á safnaðarstarfinu, kirkjunni og eigum hennar, skýrslugerð og seta á sóknarnefndarfundum.

„Ég hef alveg gaman af að vasast í svona – vinkonur mínar skilja það ekki! Í þessari sókn eru tæplega níu þúsund manns og ég átta mig á að þetta er allt annað starf og annasamara en prestsstarf úti á landi. Við erum að taka við Krýsuvíkurkirkju í sumar, það býður upp á ýmislegt skemmtilegt.“