Hringurinn er hið fullkomna form. Hann skírskotar til hringrásar lífsins, segir Harpa Másdóttir sem hefur komið fyrir fimmtán hringlaga málverkum í Hannesarholti, Grundarstíg 10. Þar opnar hún sýningu á þeim á morgun, föstudaginn 29. maí, milli klukkan 16 og 18.

Þetta er fyrsta sýning Hörpu eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands. „Í skólaverkunum vann ég með alls konar efni, form og sögur, flest þeirra verka eru í geymslu og sum voru forgengileg. En hringformið er tákn um eilífðina og endurtekninguna og myndirnar mínar eru óræðar og abstrakt. Sumir sjá organisk form og aðrir kosmóið þannig að túlkunarmöguleikarnir eru margir. Verkin eru líka án titils svo ímyndunarafl áhorfandans er óbundið og sá sem stillir þeim upp ræður hvernig þau snúa. Ég verð auðvitað að ákveða hvernig þau birtast hér á sýningunni því þau hanga á veggjunum og kallast á við hringborðin í sölum þessa fallega húss, Hannesarholts.“

Lét gamlan draum rætast

Harpa er Reykvíkingur og starfaði í háloftunum sem flugfreyja í sautján ár, fyrst hjá Air Atlanta og síðan Iceland Express, áður en hún sneri sér að listinni. „Ég ákvað að skipta um kúrs í lífinu,“ segir hún. „Þegar Iceland Express fór á hausinn missti ég vinnuna og þá lét ég gamlan draum rætast og fór í fornámið í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Það blundaði alltaf í mér listaþrá, ég var búin að ljúka námi við ljósmyndaskólann hennar Sissu, með fluginu, og taka ýmis námskeið í myndlist áður. Þarna skellti ég mér í fornámið og fór í Listaháskóla Íslands í framhaldinu. Útskrifaðist vorið 2018 og svo fæddist dóttir mín, Hólmfríður Bóel, í lok ágúst, þannig að ég var ólétt í útskriftinni!“

Eftir að fæðingarorlofi Hörpu lauk kveðst hún hafa málaði talsvert meðan konan hennar var í fæðingarorlofi. „Ég fór að leika mér með hringformið og þessi verk á sýningunni framkölluðust í eldhúsvaskinum heima hjá okkur, á stolnum augnablikum þegar ég gat einbeitt mér. Þau eru gerð með blandaðri tækni, að mestu akrýl og það er blek í sumum – ég hef unnið með olíu líka en það er erfitt í eldhúsvaski.“

Listin góð fyrir sálina

Harpa segir myndlist ólíka flugfreyjustarfinu að flestu leyti. „Það þarf auðvitað áræði til að fara út í dýrt listnám því afkoman er ekki sú tryggasta. Við getum kallað það köllun. En listin er góð fyrir sálina, bæði hjá þeim sem búa hana til og þeim sem hafa hana í kringum sig. Flugfreyjustarfið gaf mér auðvitað tækifæri til að kynnast ólíkum menningarheimum og fara á söfn, það hafði sín áhrif. Í listsköpuninni er ég svo bara undir áhrifum frá lífinu yfirleitt, þau hafa safnast saman.“

Tekið skal fram að sýningin hennar Hörpu er sölusýning og stendur til 21. júní 2020 – og að Hannesarholt er opið um helgar frá klukkan 11.30 til 17.00.