Tímamót

Þakklætisvottur fyrir uppsafnaða hamingju

Jónas Sigurðsson tónlistarmaður hlaut nýlega lista- og menningarverðlaun Ölfuss og Gróðrarstöðin í Kjarri fékk umhverfisverðlaun sama sveitarfélags fyrir árið 2018.

Ragna, dóttir Helgu Rögnu Pálsdóttur og Helga Eggertssonar í Gróðrarstöðinni í Kjarri, tók við viðurkenningunni fyrir þeirra hönd. Elliði er í miðið og Jónas lengst til hægri.

Eitt af fyrstu verkefnum Elliða Vignissonar, nýs bæjarstóra Ölfuss, var að veita bæði lista- og menningarverðlaun og umhverfisverðlaun Ölfuss fyrir árið 2018. Þau fyrrnefndu hlaut tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson fyrir framlag sitt á sviði lista og menningar til sveitarfélagsins. Í rökstuðningi kom fram að hann hafi margoft haldið tónleika eða verið hluti af menningarviðburðum í Þorlákshöfn og sé alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd, hafi hann tök á því.

Því var við hæfi að heyra í Jónasi.

„Ég er frá Þorlákshöfn, fæddur og uppalinn þar og byrjaði í tónlist í Lúðrasveit Þorlákshafnar,“ útskýrir hann. „Svo gerði ég dálítið stórt heimabyggðarverkefni árið 2012. Þá var ég með Lúðrasveit Þorlákshafnar í að gera plötu. Þar var lag sem var mikið spilað sem heitir Hafið er svart, það var til dæmis tekið upp af mér með Lúðrasveit Þorlákshafnar í kirkjunni í Þorlákshöfn,“ segir Jónas sem kveðst alltaf halda góðum tengslum við sína heimabyggð og hugsa hlýtt til hennar. Nefnir annað dæmi um það. „Ég hef haft það prinsipp að láta ekki nota tónlistina mína í auglýsingar. En svo sýndi sveitarfélagið Ölfus áhuga á að nota lagið mitt Hamingjan er hér í auglýsingu og ég gaf því ótakmarkað leyfi fyrir því lagi. Nú hefur það verið með auglýsingaherferð í tvö ár þar sem þetta lag hefur hljómað. Það virkar svona vel. Ég held að þessi viðurkenning sé þakklætisvottur fyrir uppsafnaða hamingju. Mér þykir mjög vænt um það.“

Umhverfisverðlaun Ölfuss 2018 hlaut Gróðrarstöðin í Kjarri fyrir einstaklega fallegt og snyrtilegt umhverfi. Gróðrarstöðin er í eigu hjónanna Helgu Rögnu Pálsdóttur og Helga Eggertssonar og frá árinu 1981 hafa þau byggt þar upp garðplöntuframleiðslu.

Ragna, dóttir Helgu og Helga, tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd.

Verðlaunagripina gerði Dagný Magnúsdóttir glerlistakona og eigandi kaffihússins/glerlistasmiðjunnar Hendur í Höfn í Þorlákshöfn.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Stofna sjóð til minningar um fjöl­hæfan lista­mann

Tímamót

Félag háskólakvenna heldur upp á 90 árin

Merkisatburðir

Fyrsta Harry Potter-bókin leit dagsins ljós

Auglýsing

Nýjast

Reykvíkingar tóku varla eftir lokum stríðsins

Mín faglega fjölskylda

Óænt tvist frá Póllandi í danskeppni götustílsins

Gúttóslagurinn í Reykjavík

Starfsaldurinn hærri en aldur kollega

Viljum lifandi umræður

Auglýsing