Afmælisbarnið Sólveig Arnarsdóttir hefur ekki í hyggju að endurvekja skelfilega afmælishefð úr æsku sinni.
„Mér finnst ég alltaf vera á besta aldri,“ segir leikkonan Sólveig Arnarsdóttir sem fagnar fimmtíu ára afmæli í dag. „Það eina sem ég hef fundið út er að þetta verður í alvörunni bara betra. Ég hef alltaf verið frekar sátt með minn aldur en eftir því sem ég eldist þá verð ég sáttari við mig, lífið og allt verður einhvern veginn skemmtilegra.“
Sólveig hefur engar hefðir í sínu lífi, hvorki tengdar afmælum eða nokkru öðru, og segist þar af leiðandi ekki ætla að halda í neinar slíkar á deginum stóra.
„Ég er ekki búin að leigja sal, karlakór og lúðrasveit, en ætla að halda margar afmælisveislur í minni hollum til að koma fólki fyrir í mínu fagra litla húsi,“ segir hún og útskýrir að nú sé í raun að hefjast afmælisár. „Á síðasta ári áttum við hjónin silfurbrúðkaup og við litum þá á að það væri silfurbrúðkaupsár. Allt sem við gerðum á því ári litaðist af því. Ef við fórum upp í Bláfjöll þá var það silfurbrúðkaupsskíðaferð.“
Silfurbrúðkaupsárið tókst svo vel til að gefa hlutunum nýjan brag að hin hefðalausa Sólveig mun endurtaka leikinn á fimmtugsafmælisárinu.
„Ef ég fer í bíó þá verður það fimmtugsafmælisbíóferð!“ segir hún og hlær.
Fiskur í tvöföldu vatni
Sólveig er þessa dagana að bregða sér í hlutverk Lafði Macbeth í uppsetningu á Shakespeare-verkinu sem frumsýnt var á dögunum í Borgarleikhúsinu. Þar fyrir utan er hún á æfingum fyrir verkið Prinsessuleikarnir, þar sem hún mun fara með hlutverk forsetafrúarinnar Jackie Kennedy.
„Ég held bara áfram að sinna mínum störfum og skyldum, en allt í þessum fimmtugsafmælisljóma.“
Sólveig bjó lengi í Berlín þar sem hún stundaði nám. Fjölskyldan flutti þangað þegar Sólveig fékk samning við leikhús 2019 en flutti svo aftur þegar kórónaveiran dúkkaði upp með tilheyrandi lokunum á öllu.
„Það var kannski aðallega vegna yngsta drengsins okkar, svo að hann kæmist aftur í skóla, því það var öllum skólum lokað þarna úti,“ segir Sólveig sem segist sakna margs frá Þýskalandi. „Það er samt þannig að þegar ég bjó úti þá saknaði ég Íslands – það eru til dæmis ekki sundlaugar í Berlín sem mér þótti mjög slæmt. Svo lengi framan af lífi mínu var þetta togstreita að vera í öðru landinu en nú hef ég breytt um afstöðu. Ég lít á það sem ótrúleg forréttindi í lífinu að fá að upplifa mig eins og fiskur í vatni í löndunum sem hafa bæði mótað mig og gefið mér margt.“
Skelfilegur listi
Innt eftir afmælisminningum lætur Sólveig hugann reika á myrkar slóðir.
„Þegar ég var barn var haldið í eina afmælishefð sem tíðkast sem betur fer ekki lengur í dag, og ég ætla sko ekki að taka upp aftur,“ segir hún. „Þá voru búnir til listar í afmælunum yfir afmælisgjafirnar, frá þeim bestu og yfir í þær verstu.“
Gestirnir fengu þó ekki að heyra?
„Ójú, þetta var sko gert opinberlega fyrir framan alla gesti! Yfirleitt voru gjafirnar frá ömmu og afa, ullarsokkar og þess háttar, settar í neðsta sæti en gjafirnar frá bestu vinkonu voru í því efsta. Þetta er eitthvað sem var gert í afmælum hér áður fyrr og var alveg skelfilegt. Ég man sjálf að eftir að hafa verið í afmælum hjá öðrum þar sem þetta var gert og það var alltaf pínku stressandi.“