Blikarnir Arnar Pétursson hlaupari og Karen Sif Ársælsdóttir stangarstökkvari voru sæmd heiðurstitlunum íþróttakarl og íþróttakona ársins 2020 í Kópavogi. Bæði fengu þau að launum farandbikara og eignarbikara og einnig afhenti Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri hvoru fyrir sig 200 þúsund krónur í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Þau Arnar og Karen Sif voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem hlutu viðurkenningu íþróttaráðs Kópavogs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Hefur æft í Danmörku í haust

Auk þessarar upphefðar hafði Karen Sif verið valin frjálsíþróttakona ársins 2020 hjá Breiðabliki. Hún er Íslands- og bikarmeistari kvenna í stangarstökki bæði utan- og innanhúss og var einstaklega sigursæl á síðasta ári. Nýlega var hún valin í A-landsliðið í frjálsum íþróttum fyrir árið 2001.

Karen Sif er á leið á æfingu í Kaplakrika þegar ég næ tali af henni. „En aðalþjálfari minn gegnum árin hefur verið Ingi Rúnar Kristinsson í Breiðabliki, hann á stóran þátt í þeim árangri sem ég er búin að ná.“ Karen Sif kveðst æfa tvo til þrjá tíma á dag en oftast taka einn frídag í viku. „Ég ætti að vera löngu farin til Danmerkur þar sem ég hef æft í allt haust en ákvað að fresta því aðeins út af COVID-ástandinu. Ég er öruggari hér,“ segir hún og kveðst hafa verið í Óðinsvéum frá september fram að jólum, vegna náms í sjúkraþjálfun. „Skólinn er í tölvunni þannig að ég get lært hvar sem er,“ segir hún og bætir við: „En ég hef mjög góða aðstöðu í Óðinsvéum fyrir æfingarnar.“

Stefnir á Ólympíuleikana

Arnar er hlaupagikkur mikill og er í A-liði Íslands í frjálsum. Hann vann sex Íslandsmeistaratitla á nýliðnu ári, bæði í götuhlaupum og langhlaupum á braut. Hefur verið einn besti maraþonhlaupari landsins undanfarin ár og stefnir ótrauður á ólympíulágmark í þeirri grein fyrir leikana í Tókýó í sumar.

„Ég vil ná eins miklum árangri og mögulegt er,“ segir hann. „Ég held það sé almennt draumur frjálsíþróttamanna að komast á Ólympíuleika.“ Segir þó leiðina hafa verið gerða ansi torsótta og síðasta ár hafi verið hálfgerð rússíbanareið.

Arnar lýsir því að árið 2016 hafi ólympíulágmarkið í maraþoni verið tveir tímar og nítján mínútur. „Árið 2019 kom tilkynning um breytt fyrirkomulag fyrir næstu leika. Þá var farið úr því að vera með ólympíulágmark í 80 manna heimslista, en í maraþoninu 2016 hlupu um 200. Svo var öllum maraþonum aflýst síðasta ár og eins og staðan er núna eru 80 manns búnir að hlaupa á undir 2.11.30. Ef maður ætlar að eiga séns í Tókýó þarf maður að gjöra svo vel og ná því og aðeins betur. Það er erfitt núna.“

Undanfarin ár kveðst Arnar hafa farið til Bandaríkjanna að æfa í 2.500 metra hæð í áfallabúðum, það sé auðvitað ekki í boði nú. „Venjulega hef ég líka verið að æfa í sömu hæð úti í Kenía á þessum árstíma en nú var kippt undan manni fótunum. Svo er lítið um maraþon í Evrópu í vor, þó er ekki búið að blása af Kaupmannahafnarmaraþonið í maí. Þannig að það er mikil óvissa en ég reyni að vera bjartsýnn og jákvæður og gera það besta í stöðunni.“