Díana fæddist í Sandringham á Englandi og er fjórða barn af fimm og yngsta dóttir þeirra Edwards John Spencer og fyrri eiginkonu hans, Frances Spencer, greifynjunnar af Althrop. Lengi vel var faðir Díönu persónulegur aðstoðarmaður Georgs VI bretakonungs.

Kallaði drottninguna „Lilibet frænku“

Foreldrar Díönu skildu árið 1969, en tveimur árum áður yfirgaf móðir hennar fjölskylduna og hljópst á brott með forríkum manni að nafni Peter Shand Kydd. Í kjölfarið fékk faðir Díönu forræði yfir þeim systkinum. Díana ólst upp í Park House, sem er næsta hús við Elísabetu II, drottningu Bretlands, og fjölskyldu hennar, en allt frá barnsaldri kallaði Díana drottninguna „Lilibet frænku“.

Árið 1976 giftist faðir hennar greifynjunni af Dartmouth, en samband Díönu við stjúpmóður sína var sérstaklega slæmt. Síðar lýsti Díana bernsku sinni sem „óstöðugri“ og að hún hafi verið „mjög óhamingjusöm“. Hún fékk nafnbótina Lafði Díana þegar faðir hennar erfði titilinn Jarlinn af Spencer árið 1975.

Trúlofuðust eftir einungis sex mánaða tilhugalíf

Díana hneigðist ekki til langskólanáms en var hæfileikarík á öðrum sviðum, meðal annars í dansi, tónlist og íþróttum. Árið 1978 flutti hún til Lundúna þar sem hún bjó með vinum og vann ýmis störf, meðal annars sem ráðskona, dagmóðir og aðstoðarkona leikskólakennara.

Díana hitti fyrst Karl, prinsinn af Wales, árið 1977 þegar hún var 16 ára gömul og hann var 29 ára. Það var þó ekki fyrr en sumarið 1980 sem Karl fór fyrst að gefa Díönu gaum og í febrúar 1981, eftir einungis sex mánaða tilhugalíf, bað Karl Díönu. Trúlofuninni var þó haldið leyndri í tvær og hálfa viku.

Þann 29. júlí 1981 fór brúðkaup þeirra Karls og Díönu fram við mikla viðhöfn sem fjölmiðlar kölluðu „ævintýrabrúðkaup“ og „brúðkaup aldarinnar“ og í kjölfarið hlaut hún titilinn Prinsessan af Wales. Díana markaði þáttaskil innan konungsfjölskyldunnar þar sem hún var fyrsti breski ríkisborgarinn til að giftast erfingja bresku krúnunnar í nærri 300 ár.

Enn í dag er Díönu minnst með hlýhug, sem hin eina sanna prinsessa fólksins.
Fréttablaðið/Getty

Stormasamt hjónaband

Díana og Karl eignuðust tvo syni, þá Vilhjálm árið 1982 og Harry árið 1984. Díana tók móðurhlutverkið mjög alvarlega og var umhyggjusöm, nærgætin og natin við syni sína. Hún valdi nöfn þeirra beggja sjálf, vildi ekki konunglega barnfóstru heldur valdi hana sjálf, valdi skólana sem þeir sóttu sem og klæðnað þeirra og fór með þá í skólann eins oft og hún gat.

Hjónaband Karls og Díönu var stormasamt og einkenndist af miklum erfiðleikum og síðar framhjáhaldi. Þau skildu að borði og sæng árið 1992, en hjónabandið endaði formlega með lögskilnaði árið 1996.

Lét lífið á flótta frá ljósmyndurum

Þann 31. ágúst árið 1997 lenti Díana í hörmulegu bílslysi við Pont de l´Alma göngin í París sem leiddi hana til dauða, en hún ásamt vini sínum, Dodi Fayed, voru á flótta undan papparassi-ljósmyndurum. Hún hafði lengi vel verið eitt helsta viðfang slíkra ljósmyndara, þá sérstaklega eftir skilnaðinn við Karl. Hún var aðeins 36 ára gömul. Gervöll heimsbyggðin grét með sonum hennar við útförina og enn í dag er hennar minnst með hlýhug um allan heim, sem hin eina sanna prinsessa fólksins.

Arfleifð Díönu

Sem prinsessan af Wales tók Díana að sér ýmsar konunglegar skyldur og var fulltrúi drottningar í störfum víðs vegar um heim, en það var óhefðbundin nálgun hennar á góðgerðarstörfum sem vöktu athygli heimsins. Störf hennar beindust mikið að börnum og unglingum, en síðar varð hún þekkt fyrir baráttu sína gegn jarðsprengjum sem og stuðning við fólk sem þjáist af alnæmi.