Pálmi Jóns­son, Pálmi í Hag­kaup, klippti á borðann og hleypti Ís­lendingum inn í glæ­nýja verslunar­mið­stöð, sem kölluð var Kringlan, fyrir 35 árum. Þar var gos­brunnur og pálma­tré og þar var hlýtt inni, sem þótti ný­lunda. Það þekktust alveg verslunar­kjarnar í borginni en Kringlan var fyrsta eigin­lega verslunar­mið­stöðin með innri göngu­götu á tveimur hæðum og tug verslana.

Í Kringlunni er allt frá bóka­safni, fast­eigna­sölu, kvik­mynda- og leik­húsi, til vín- og fata­verslana. Yfir árið 2020 dróst að­sókn í Kringluna eðli­lega saman enda heims­far­aldur í gangi, en að­sókn á kringlan.is marg­faldaðist. Þrátt fyrir dræma að­sókn í húsið á köflum, á meðan far­aldurinn stóð sem hæst, þá jókst sala í Kringlunni milli ára. Bygging Kringlunnar hófst árið 1984 og síðan hefur hún stækkað jafnt og þétt eins og sönnu af­mælis­barni sæmir. Stór­tækar breytingar eru fyrir­hugaðar á Kringlu­svæðinu, sem miða að því að skapa öflugt sam­fé­lag í­búða, verslunar, þjónustu, menningar og list­starf­semi. Upp­byggingin er lang­tíma­verk­efni þar sem gert er ráð fyrir 160 þúsund nýjum fer­metrum með 800 til 1.000 nýjum í­búðum.

Fjöldi verslana hefur verið í húsinu nánast frá upp­hafi, má þar nefna sem dæmi Mebu, Hag­kaup, Herra­garðinn, Kringlu­krána og Sau­tján.

13. ágúst 1987, Pálmi Jónsson í Hagkaup klippir á borða og opnar Kringluna.
Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Af­mælis­deginum verður eðli­lega fagnað og skipu­lögð dag­skrá frá kl. 13.30-17.00. Lúðra­sveit byrjar há­tíðina með trompi og síðan verður risa af­mæliskaka og kaffi frá Kaffi­tár, and­lits­málun, blöðru­gerðar­menn, hjóla­skautalista­menn, krap, á­vaxta­bar – og er til af­mæli án þess að hafa Can­dy Floss? Töst, Coca Cola, Há­mark, Mentos og Nói Síríus verður einnig í boði fyrir gesti og gangandi og verslanir í Kringlunni bjóða upp á til­boð í til­efni dagsins.