Sængin er búin að vera í vöruþróun hjá okkur í tæpt ár. Í henni er íslensk ull sem búið er að fínkemba í nokkur lög. Svo er fjölskyldufyrirtæki í Þýskalandi sem saumar hana fyrir okkur,“ segir Sigríður Jóna Hannesdóttir, verkefnastjóri hjá Ístex í Mosfellsbæ, og hampar nýjustu afurð fyrirtækisins, léttri og dúnmjúkri sæng.

Í sængunum er mislit ull sem ekki er gjaldgeng í lopa og band, að sögn Sigríðar Jónu. Hún bendir á að jákvætt sé að geta nýtt afgangsull með þessum hætti. „Við notum bæði togið og þelið, þvoum það mjög vel og fínkembum. Ullin er svo lagskipt í hólfum í sænginni og vegna meðhöndlunarinnar fer hún ekki í hnökra eða hnúta þó að sængin sé þvegin. Eins má setja sængina á vægan hita í þurrkara,“ lýsir hún.

Fyrir þá sem leggja áherslu á að kaupa vörur úr íslensku hráefni er þarna greinilega kominn annar valkostur en dúnninn. En tauið er eflaust í báðum tilfellum erlent. Í ullarsængunum er það úr 100% bómull. Sigríður Jóna segir þýska fyrirtækið sem sér um saumaskapinn útvega það. „Hún er okkur dýrmæt, þessi þýska fjölskylda, og hefur verið einstaklega hjálpleg og þolinmóð við að búa til réttu sængina sem við erum ánægð með,“ segir hún og bætir við að reyndar sé um tvær þykktir að ræða, heilsárssæng og vetrarsæng. Heilsárssængin heiti Embla og vetrarsængin Iðunn. „Iðunn er með tveimur lögum, meira af ull en Embla,“ útskýrir hún og bætir við: „Kosturinn við íslensku ullina er hvað hún andar vel og hún er líka létt. Það er rúmlega eitt kíló í heilsárssænginni og örlítið meira í vetrarsænginni.“

Koddar úr sama hráefni eru í vöruþróun hjá Ístex, upplýsir Sigríður Jóna. Hún segir ullarsængurnar ekki komnar í verslanir en hins vegar hægt að panta þær á heimasíðunni lopidraumur.is og heimsending sé ókeypis innanlands.