Tvö handrit sem varðveitt eru á Minjasafninu á Bustarfelli hafa nú birst í fyrsta skipti á prenti í nýútgefnu bókinni Bustarfell - saga jarðar og ættar. Handritin veita innsýn í ættfræði, þjóðhætti og sögu torfbæjarins, sem og ættarinnar sem þar hefur búið frá 1532.

„Það er óhætt að segja að þessi bók hafi verið lengi í bígerð,“ segir Finnur Ágúst Ingimundarson, höfundur og ritstjóri bókarinnar. „Ég er ekki sjálfur ættaður frá Bustarfelli en slysaðist þangað í sveit sumarið 1999, þá níu ára að aldri. Ég kom þangað svo ár eftir ár til sumardvalar og fór að vinna á búinu og Minjasafninu þegar ég varð eldri.“

Finnur Ágúst Ingimundarson, höfundur og ritstjóri bókarinnar.
Mynd/Aðsend

Sumarið 2008 kom Björg Einarsdóttir húsfreyja á Bustarfelli að máli við Finn Ágúst og sýndi honum handrit eftir afa hennar Methúsalem Methúsalemsson sem seldi ríkinu torfbæinn 1943.

„Hann skrifaði árið 1957 sögu jarðarinnar og ættarinnar sem hann tilheyrði sjálfur og hefur búið á jörðinni frá 1532,“ segir Finnur Ágúst, sem byrjaði sama sumar að skrifa upp handrit Methúsalems. „Ég var bara átján ára þá, hafði litla reynslu af svona vinnu og sóttist þetta frekar seint.“

Tíu árum síðar, þegar Finnur Ágúst taldi sig hafa gengið sæmilega frá efninu, komst hann, við störf sín sem safnvörður á Minjasafninu, á snoðir um hitt handritið eftir séra Einar Jónsson á Hofi.

„Þegar ég var kominn með það í hendurnar þá fannst mér augljóst að þessi handrit ættu að fylgjast að í bókinni,“ segir hann. „Í kjölfarið hófst ég handa við að gera alvöru úr þessu og að búa handritin til útgáfu.“

Finnur Ágúst segir heilmargt hafa komið í ljós við grúskið í kringum handritin.

„Mér finnst í rauninni það frásagnarverðasta alltaf vera það að þessi saga sé á annað borð til,“ segir hann. „Að þessi sama ætt hafi búið á þessari jörð í tæplega hálfa þúsöld er eiginlega einsdæmi á Íslandi. Jafnvel þó að ættin hafi búið þarna svona lengi þá hefur það ekki alltaf verið sjálfsagt að það yrði áframhald á því. Það hefur stundum staðið tæpt af ýmsum ástæðum, en til þessa dags hefur keðjan ekki slitnað og 16. kynslóð ábúenda tekur nú við keflinu.“