Félagsfræðingafélag Íslands býður til málþings og móttöku í dag í tilefni af Félagsfræðideginum. Á dagskránni, sem fer fram í Veröld, húsi Vigdísar, verður áherslan lögð á brýn málefni á alþjóðavettvangi og hverjar félagslegar afleiðingar séu af styrjöldum og ójöfnuði þjóða.

Lykilerindi á málþinginu flytur Sigríður Víðis Jónsdóttir, sem gaf nýlega út bókina Vegabréf: Íslenskt þar sem lesandanum er boðið með í ferðalög um heiminn. Í kjölfarið mun pallborð félagsvísindafólks bregðast við erindi Sigríðar og taka fyrir spurningar á borð við hver okkar ábyrgð sé við að viðhalda ójöfnuði á heimsvísu.

„Að mörgu leyti er þessi bók hennar Sigríðar ein heild sem segir okkur samt tíu litlar sögur sem saman skapa ákveðna sýn á því hvert ástandið í mörgum löndum sé, meðal annars vegna hluta sem við á Vesturlöndum höfum gert,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, sem tekur þátt í umræðunum í dag. „Þetta vekur líka spurningar um hver ábyrgð okkar sé á stöðu mála í löndum sem geta verið okkur mjög fjarlæg og hver ábyrgð okkar sé í að gera eitthvað í þeim málum.“

Sigrún segir þessar spurningar kristallast vel í kaflanum um Afganistan og hversu langa forsögu aðstæður þar í dag eiga sér.

„Miðað við allt sem var gert hefðum við kannski getað spáð fyrir um hvað myndi gerast þegar Bandaríkin drógu sig alfarið til baka 2021,“ segir hún. „Það þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að talibanar tóku nánast samstundis yfir. Er það siðferðislega rétt að við getum gert þetta eftir að ákveðin lönd eru búin að vera með í alls konar afskiptum þarna áratugum saman og hafa að hluta til skapað aðstæður sem gera það að verkum að þessi hópur, sem brýtur á mannréttindum, kemst til valda?“

Stóra og litla myndin

Það er oft auðvelt að vera vitur eftir á og segja hvað betur hefði mátt fara, en getum við notað þessa þekkingu í dag til að gera ekki sömu mistökin aftur?

„Sagan, og hvernig hún er sett í samhengi út frá ýmsum fræðigreinum á borð við félagsfræði, segir okkur að við getum aldrei sagt nákvæmlega til um hverjar afleiðingarnar verða af ákvörðunum okkar. En við erum samt með mikið af upplýsingum og tækjum sem við getum notað til að greina hverjar líklegar afleiðingar verða og geta hjálpað okkur til að taka réttar ákvarðanir.“

Sigrún segir að við gætum lært mikið af bók Sigríðar, ekki einungis í stóra samhenginu, heldur líka sem manneskjur.

„Ég vildi helst að hún yrði skyldulesning fyrir alla á Íslandi,“ segir hún. „Þetta sýnir okkur þessa stóru mynd í gegnum lítil dæmi þar sem áherslan er á sögu einstaklings í hverju landi en segir okkur svo miklu meira um stærri samfélagslega þætti á borð við ójöfnuð og stríð.“

Dagskráin í dag hefst klukkan 15 og stendur yfir í um tvo tíma. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð í grunn- og meistaranámi í félagsfræði.