Ég skrifa þetta þeim til heiðurs og minningar sem komu við sögu svo að hjúkrunarheimilið yrði að veruleika. Þar lögðu margir sitt pund á vogarskálar,“ segir Ásgeir Jóhannesson um bók sína: Sunnuhlíð – Ævintýri fólks og félaga í Kópavogi 1979-1999. Hún er nýkomin úr prentun og hefur að geyma lýsingu á því andrúmslofti sem skapaðist í Kópavogi er allir bæjarbúar tóku höndum saman, söfnuðu fé og komu upp myndarlegu hjúkrunarheimili á tveimur árum.

Fyrsta skóflustungan var tekin í janúar 1980 af elsta íbúa bæjarins, Ragnhildi Guðbrandsdóttur 101 árs gamalli og heimilið var vígt á uppstigningardag árið 1982 með mikilli viðhöfn, að viðstöddum 3.000 manns, aðallega bæjarbúum sem þá voru um 13.000. Þetta var þeirra hús. En hvernig hófst ævintýrið? Ásgeir svalar fúslega forvitni fréttamanns.

„Það var nýstofnaður Soroptismistaklúbbur Kópavogs sem vakti fyrst máls á því að hér í bæ vantaði sárlega aðstöðu til að hjúkra öldruðum. Hann boðaði tíu félög í bænum á fund og hvatti þau til að skora á bæjarstjórn og ríki að byggja hér hjúkrunarheimili. Sú hugmynd var svo kynnt í hverju félagi. Ég var formaður Rauða kross deildarinnar og þar komumst við að þeirri niðurstöðu að ekki væri í okkar verkahring að skora á aðra, heldur gera þá hluti sem þörf væri á. Á næsta fundi viðraði ég þá hugmynd hvort félögin sjálf, með allan sinn kraft, ættu ekki að ráðast í að byggja hjúkrunarheimili. Það varð úr að níu félög slógu sér saman. Vandinn var sá að enginn vildi leiða starfið og mér var stillt upp við vegg. Ég var forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, hafði setið í bæjarstjórn og verið í bankaráði svo ég þekkti kerfið. Eftir nokkra umhugsun tók ég þetta að mér. Allt á sínar orsakir. Ég er Húsvíkingur og var byrjaður í MA á sínum tíma en veiktist af lömunarveiki sem lék mig grátt. Nú hugsaði ég: Hér eru hugmyndir að þörfu verkefni. Er ég of góður til að leggja samfélaginu lið úr því ég komst á fætur og get staðið uppréttur?“

Tókst vel að ná til fólks

Ásgeir segir strax hafa verið stefnt að því að byggja hjúkrunarheimilið á tveimur árum. „Og við gerðum það, þó engir peningar væru til í byrjun og engin lóð í hendi, okkur tókst svo vel að ná til fólks, bæði innan bæjar og utan. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri elliheimilisins Grundar, byrjaði á að gefa okkur 3.000 peningabauka sem við dreifðum í hús í bænum og hér voru fjórar kynslóðir sem lögðu sitt af mörkum til byggingarinnar. Elsta kynslóðin lagði peninga í baukana, stjórnsýslukynslóðin hélt utan um framkvæmdina, táningarnir gengu um bæinn og skiptu um bauka og yngsta kynslóðin hélt tombólur, hún er nú um fimmtugt. Það eru góðar myndir í bókinni af um hundrað tombólubörnum því ljósmyndarinn Jón Aðalbjörn baust til að taka myndir af þeim. Hugmyndaauðgin var ótrúleg hjá fólki þegar kom að því að safna fé, enda þurftum við á öllu að halda. Það verður til stórt átak þegar tekst að sameina svona mörg félög og stofnanir sem annars eru í samkeppni innbyrðis. Við héldum friði og dampi með því að stofna Sunnuhlíðarsamtökin. En verðbólgan fór í 130% á þessum tíma og það varð að æða áfram með framkvæmdina svo fjármunirnir brynnu ekki upp.“

Ásgeir tekur fram að allir verktakar hafi fengið greitt fyrir sína vinnu á venjulegum töxtum. Það var söfnunin sem var unnin í sjálfboðavinnu og öll yfirstjórn. Fólk gaf lon og don til heimilisins. Konurnar í kvenfélaginu saumuðu gardínur, Auður Sveinsdóttir gaf okkur teikningu að lóðinni, okkur voru gefnar þökur og blóm og Rauðakrosskonur unnu sem sjálfboðaliðar við að skemmta fólki á heimilinu,“ bara svo dæmi séu tekin. Þeir lýsa því í bókinni, Hilmar Þorbjörnsson arkitekt og Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill sem lagði fram ómælt starf, að sá andi og gleði sem hafi fylgt þessu verkefni hafi blásið þeim kraft í brjóst til framtíðar.

Byggðu líka íbúðir

Sunnuhlíðarsamtökin gerðu betur en reisa fyrsta sérhæfða hjúkrunarheimili landsins, þau byggðu líka 109 vistlegar íbúðir fyrir aldraða. Ásgeir býr í einni slíkri en eiginkona hans, Sæunn Sveinsdóttir frá Ólafsvík dvelur nú á hjúkrunardeild Sunnuhlíðar. Hann kveðst hafa verið kominn yfir áttrætt þegar hann byrjaði á bókinni. Ég vildi ekki að sagan tapaðist, þess vegna skrifaði ég hana niður og fór með handritið á héraðsskjalasafn bæjarins, þar komst Sögufélag Kópavogs í hana og fannst efnið það þýðingarmikið að það ákvað að gefa bókina út. Anton Helgi Jónsson er ritstjóri hennar. Ég tel að þessi saga eigi erindi við fólk í dag því hún sýnir hverju kynslóðir á ólíkum aldri fá áorkað þegar þær leggja saman.“

Sögufélag Kópavogs gefur bókina út.