Jú, það er að bresta á, ég get ekki spornað við því,“ segir Skúli Gautason þegar hann er spurður hvort það sé ekki rétt sem í afmælisregistri Fréttablaðsins stendur að hann sé að fylla sjötta tug ára. Í því registri er hann reyndar titlaður leikari, snigill og tónlistarmaður en nú starfar hann sem menningarfulltrúi Vestfjarða og hefur gert í þrjú ár. Hann er skráður til heimilis á Víðidalsá við Hólmavík en er á Akureyri þegar samtal okkar fer fram.

„Fjölskylda mín er hér fyrir norðan og ég þvælist svolítið á milli, á hús á báðum stöðum en bý fyrir vestan og er mikið á flandri um Vestfirði. Víðidalsá er gamall bóndabær innst í Víðidal sem við hjónin keyptum fyrir mörgum árum og ég hef verið að dunda við að gera upp síðan.“

Ekki kveðst hann þó eiga rætur í Strandasýslunni. „Ég bara var þar dálítið við að leikstýra hjá leikfélagi Hólmavíkur sem er öflugt leikfélag og varð ástfanginn bæði af mannlífinu og náttúrunni svo við keyptum þar hús til að hafa sem sumarhús og þar bý ég nú.

Inntur eftir því í hverju starf hans felist svarar Skúli: „Ég sé um Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, úthlutunarnefnd sér um að veita styrkina, ég er bara starfsmaður sjóðsins. Það eru um 50-60 milljónir á ári sem deilt er út. Svo reyni ég að hvetja fólk til dáða og aðstoða það við að efla menninguna á Vestfjörðum, eins og þeir leggja sig.“

Það gefur augaleið að starfinu fylgja mikil ferðalög. „Já, þetta er mikill akstur. Þegar ég tók við starfinu fór ég fljótlega á bílasölu og sagði að nú vantaði mig bíl og það eina sem skipti máli væri að hann færi vel með mig, því ég ætlaði nánast að búa í honum. Svo ég fékk mér stóran Citroën sem er algert töfrateppi. Fyrst var ég eitthvað að brölta þarna á jeppa en þá var einn ágætur sveitarstjóri sem beinlínis skammaði mig og spurði hvað ég væri að þvælast um í alls konar veðrum og ófærð. „Annaðhvort kemstu með góðu eða þú ert bara heima hjá þér, þú átt ekkert að vera að brjótast áfram uppi á heiðum þegar tvísýnt er um færð,“ sagði hann.

Nú segir hann nýjustu fregnir herma að minnka eigi moksturinn á svæðinu og hætta að skafa klukkan sjö á kvöldin. Það líst honum illa á.

En að afmælinu sem er aðaltilefni viðtalsins. Hvernig eru plönin fyrir daginn?

„Ég ætla að halda smá veislu fyrir fjölskyldu og nánustu vini hér heima í Litla-Garði sem er gamall bóndabær skammt frá Akureyrarflugvelli. Fjölskyldan mín er þar. Hér er hlaða sem ég breytti í hálfgert menningarhús. Ég tel hana vera gott tónleikahús og margir sem hafa komið þar fram styðja þá kenningu. Hún verður örugglega staðfest í kvöld, ég reikna með að lagið verði tekið í Litla-Garði!“