Verslun Silla og Valda er viðfangsefni fræðslugöngu á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur annað kvöld. Þar mun Helga Maureen Gylfadóttir leiða gesti um miðbæ Reykjavíkur þar sem saga verslunarveldisins verður rakin.

Nýlenduverslun Silla og Valda var rekin í Aðalstræti 10 á árunum 1927 til 1975. Hún var í eigu Sigurliða Kristjánssonar og Valdimars Þórðarsonar sem áttu þegar mest lét einar tíu verslanir víðs vegar um Reykjavík. Þeir voru meðal annars þekktir fyrir nýstárlegar auglýsingar sínar í blöðunum og vísar yfirskrift göngunnar í kjörorð þeirra félaga: Af ávöxtunum skuluð þjer þekkja þá.

Nýlega var opnuð sýning í Aðalstræti 10 þar sem gestir geta kynnst fjölbreyttri sögu hússins. Þar stendur meðal annars til boða að upplifa aðkomuna að búðarborðinu hjá Silla og Valda.