„Það er grímuskylda í rútunum og síðan verður fólk utan dyra. En við urðum að hætta að taka við bókunum þegar 300 manns voru komnir á skrá. Okkur fannst við ekki geta stefnt fleirum saman,“ segir Margrét Baldursdóttir um fyrirhugaða Þórsmerkurgöngu í dag, laugardaginn 5. júní, til ágóða fyrir Styrktarsjóð Göngum saman.

Tvær mismunandi leiðir verða gengnar með leiðsögn, Merkurhringur og Tindfjallahringur. Þátttakendur greiða 5000 króna skráningargjald í göngurnar sem rennur óskipt í styrktarsjóðinn. Rútufarþegar greiða fyrir sín sæti og þeir sem njóta grillveislu að göngu lokinni greiða fyrir hana en kvöldvaka við varðeld kostar ekkert.

Margrét situr í stjórn sjóðsins en segir ferðaþjónustufyrirtækið Volcano Trails eiga hugmyndina að þessari fjáröflunarferð í Þórsmörk.

„Einhver úr Volcano Trails var staddur í verslun og sá þar viðskiptavin með innkaupapoka merktan okkur, hafði samband og bauðst til að skipuleggja svona ferð. Auk þess leggur fyrirtækið 1500 krónur í söfnunina á móti hverjum 5000-kalli frá göngufólkinu.“

Hún segir ferðina hafa verið á áætlun í fyrrahaust en orðið hafi að fresta henni vegna heimsfaraldursins.

Þórsmörkin býður upp á fjölbreyttar gönguleiðir. Tvær verða í boði hjá Göngum saman. MYND/WIKIPEDIA

Tindfjallahringurinn erfiðari

Einhverjir fóru inn í Þórsmörk í gær, föstudag, gistu og taka svo þátt í göngunni í dag, að sögn Margrétar.

„Ég veit að gistirými í Mörkinni er allt uppselt. Svo fer fólk með rútum og á eigin bílum.“

Hringirnir sem gengnir verða eru mislangir- og erfiðir, að sögn Margrétar.

„Merkurhringurinn skilst mér að taki þrjá til fjóra tíma, það er hægt að stytta hann með því að sleppa göngu á Valahnjúk. Tindfjallahringurinn er meira á fótinn og tekur að minnsta kosti klukkustund lengri tíma,“ lýsir hún. Kveðst sjálf svolítið slæm í hné svo hún ætli að velja auðveldari leiðina.

Fyrsta náttúruganga félagsins

Félagið Göngum saman var stofnað 2007. Markmið þess eru að styrkja íslenskar grunnrannsóknir á eðli og orsökum brjóstakrabbameins, einnig að stuðla að bættri meðferð þeirra sem greinast og auknum lífslíkum. Um 110 milljónum króna hefur verið úthlutað til íslenskra vísindamanna sem vinna að þessum markmiðum. Það fé hefur einkum safnast með því að ganga saman og greiða þátttökugjald.

Göngur félagsins hafa farið fram í þéttbýli víða um land undanfarin ár en Margrét segir Þórsmerkurgönguna þá fyrstu sem skipulögð er úti í náttúrunni.

„Hinsvegar hafa hópar gengið saman, safnað áheitum og látið okkur njóta. Eigendur ferðaþjónustunnar Skotgöngu, Inga, Snorri og Magga, gengust fyrir 154 km langri áheitagöngu nýlega um skosku hálöndin. Systir Ingu, Iðunn Geirsdóttir, var öflugur liðsmaður okkar félags á Austfjörðum. Hún hefði orðið fimmtug í sumar en lést 47 ára. Systir hennar og mágur efndu til göngunnar í minningu hennar og söfnuðu tólf hundruð þúsundum fyrir Göngum saman“