Er ég að eyðileggja fyrir þér matartímann?“  spyr ég Sigurjón Kjartansson kvikmyndagerðarmann hikandi. „Þú ert að eyðileggja fyrir mér daginn.“

Nú er ég að falast eftir afmælisviðtali. „Mig grunaði það.“ Hvernig líst þér á það?

„Ágætlega sosum. Ég er hins vegar … ef þú ætlar að fara að vesenast í að mynda mig … á leiðinni úr bænum.“

Það var verst. En það hljóta að vera til myndir af þér hér í myndasafninu. „Já, já, gullfallegar myndir, ábyggilega.“

Ég hef fulla trú á því. Á að stinga af? „Það á að stinga af – vera utan þjónustusvæðis á afmælinu. Setningin „hann er að heiman í dag“ verður í fullu gildi.“

Hvernig leggst í þig að verða hálfrar aldar gamall? „Bara ágætlega. Ég kvíði þessu ekkert sérstaklega.“

Hefurðu búið þig eitthvað undir það andlega? „Það mætti kannski segja það. Ég hef trú á því að árin milli fimmtugs og sextugs, jafnvel fimmtugs og sjötugs, geti verið bara alveg ágætur tími.“

Ég get staðfest það – góður tími ef maður heldur lífi og heilsu. „Þetta hefur mér sko verið sagt. En svo er þetta líka spurning um að hafa náð að moka skítnum sínum jafnóðum, svona hinum andlega skít, þá held ég að þessi ár geti orðið ansi ljúf og ég er bara ágætlega í stakk búinn.“

Hvernig hefur þú ofan af fyrir þér dags daglega? „Ég hef ofan af fyrir mér með því að starfa hjá RVK stúdíó, hann Baltasar á það nú, við höfum verið að reka það og gera meðal annars Ófærðarseríurnar. Núna er það sería tvö sem heldur mér föngnum. Við erum að klippa hana og ætlum að setja hana í loftið fyrir áramót. Svo er ég svokallaður þróunarstjóri hjá RVK stúdíó og þar eru að kokkast ansi mörg skemmtileg verkefni sem ég get ekki mikið sagt frá – en lifi og hrærist í.“